Matartrend: pönnukökur!

Nú þykir flottast að flagga myndum af hnausþykkum stöflum af …
Nú þykir flottast að flagga myndum af hnausþykkum stöflum af nýlöguðum pönnukökum á samfélagsmiðlum. mbl.is/halbakedharvest.com

Orðið í eldhúsinu er að marið avókadó, eða lárpera, á ristaðri brauðsneið sé á hraðri niðurleið hvað varðar vinsældir og vænn stafli af pönnukökum með hlynsýrópi sé málið.

Flestir kannast eflaust við að fletta í gegnum instagram og sjá fjölmargar myndir af krömdu avókadó hvíla á ristaðri brauðsneið með salti og pipar, og mögulega dass af tómötum hjá þeim allra flippuðustu. Þotulið samfélagsmiðilsins instagram eiga það flest sameiginlegt að hafa á einhverjum tímapunkti klifrað upp á stól á góðum bistro til að ná hinni fullkomnu mynd af brauðsneiðinni í þeim tilgangi að birta hana á instagram og líklegt að myllumerkin #avocadotoast eða #avocadolover eða jafnvel #avotoast hafi fengið að fljúga með.

En það sem þykir flott einn daginn er hallærislegt þann næsta og er full vinna að fylgjast með hvað er móðins hverju sinni á samfélagsmiðlum. Vilja instagram sérfræðingar meina að nú sé í meira lagi lummulegt að hlaða upp myndum af avókadóbrauðsneiðinni frægu, og þyki núna flottast að flagga myndum af hnausþykkum stöflum af nýlöguðum pönnukökum. Við verðum að viðurkenna að við erum spennt fyrir þessari nýjung, enda möguleikarnir talsvert meiri í pönnukökum en avókadóbrauðsneiðum. Hægt er að finna allt frá próteinpönnukökum einkaþjálfara bornar á borð með mögrum skyrsósum, upp í smjörsteiktar kolvetnasprengjur löðrandi í hlynsýrópi.

Það jafnast fátt á við loftkennda pönnuköku, með vænum slurk af sýrópi og handfylli af bláberjum, til að róa sálina eftir erfiðan dag. Þá er um að gera að skoða myllumerkin #pancakeporn #pancakestack og #pancakesunday á instagram til að fyllast innblæstri fyrir næstu pönnukökugerð. 

Hallærislegt þykir orðið að deila myndum af avókadó á ristuðu …
Hallærislegt þykir orðið að deila myndum af avókadó á ristuðu brauði. mbl.is/gimmedelicious.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert