Svona gerir þú bleika kleinuhringi

Það væri ekki ónýtt að maula þessa með kaffinu.
Það væri ekki ónýtt að maula þessa með kaffinu. mbl.is/AwwSam

Sam Ushiro er hönnuður, stílisti og kleinuhringja-unnandi sem er litrík og úrræðagóð í meira lagi. Við rákumst fyrst á Sam á brölti um samfélagsmiðilinn instagram og kolféllum fyrir henni, en hún er hafsjór af skemmtilegum föndur- og DIY-hugmyndum auk þess að vera ansi lunkin við bakstur. Lífs- og litagleði Sam er bráðsmitandi en vill hún meina að hlutirnir séu betri á bragðið ef þeir eru bleikir. Hún vippaði því í þessa uppskrift að bleikum kleinuhringjum, sem við fáum náðarsamlegast að deila hérna með ykkur.

Bleikir kleinuhringir

Fyrir kleinuhringina:

  • 1 og ¼ bolli hveiti
  • ½ tsk. salt
  • ½ tsk. matarsódi
  • 1 og ½ tsk. kakóduft
  • ¾ bolli sykur
  • ½ bolli olía
  • ½ bolli mjólk
  • 1 egg
  • 1 tsk. vanilludropar
  • ½ tsk. edik
  • bleikur matarlitur

Fyrir glassúrinn

  • 2 bollar flórsykur
  • ¼ bolli mjólk

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 180 gráður. Smyrjið feiti í kleinuhringjamótið.

  2. Blandið saman hveiti, salti, matarsóda, kakó og salti í stóra skál. Takið fram aðra skál og blandið þar saman olíu, mjólk, eggi, vanilludropum og ediki. Bætið því næst þurrefnunum úr fyrri skálinni varlega saman við blautmetið í seinni skálinni. Þetta skal gera í litlum skömmtum og hræra vel á milli.

  3. Þegar deigið er hrært til fulls, bætið þá matarlit saman við þar til blandan er orðin vel bleik. Þá er best að setja deigið í sprautupoka og sprauta í kleinuhringjamótið og fylla hvert hólf upp til hálfs.

  4. Bakið í 9-12 mínútur eða þar til brúnir kleinuhringjanna byrja að brúnast á lit. Takið þá kleinuhringjamótið úr ofninum og leyfið því að kólna vel.

  5. Blandið saman flórsykri og mjólk í skál þar til blandan er slétt og laus við alla kekki. Þegar kleinuhringirnir hafa kólnað algerlega má dýfa hverjum og einum ofan í glassúrinn og leggja svo á grind til að leyfa glassúrnum að stífna. 
Sam Ushiro vill meina að bleikir kleinuhringir bragðist betur en …
Sam Ushiro vill meina að bleikir kleinuhringir bragðist betur en aðrir. mbl.is/AwwSam

A post shared by Sam Ushiro (@aww.sam) on Apr 27, 2018 at 2:13pm PDT


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert