Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson voru sérlegir dómarar kvenfélagskvenna í Grundarfirði á dögunum. Af mörgum góðum kökum sem boðið var upp á stóð þessi upp úr að sögn Alberts og bar sigur úr býtum.
Höfundur hennar er Ingibjörg Anna Hinriksdóttir, sem nýgengin er í kvenfélagið Gleym mér ei, og átti heldur betur glæsilega inngöngu.
Jarðarberja- og Baileys-terta
Svampbotn
- 1 bolli sykur
- 1 bolli egg
- ¾ bolli hveiti
- ¼ bolli kartöflumjöl
- 1 tsk. lyftiduft
AÐFERÐ:
- Stillið ofninn á 160°.
- Þeytið egg og sykur saman þannig að þau verði ljós og létt. Bætir síðan þurrefninu í skálina og hrærir varlega saman. Setjið degið í form og inn í ofn í u.þ.b kortér. Kælið svampbotninn.
Marengs
- 170 gr. sykur
- 3 eggjahvítur
AÐFERÐ:
- Stillið ofninn á 140°.
- Stífþeytið eggjahvíturnar saman við sykurinn. Setjið í formið og inn í ofn í u.þ.b klukkustund. Kælið marengsinn.
Að auki þarf:
Makkarónur
og eina öskju af jarðarberjum.
AÐFERÐ:
- Setjið svampbotn á disk. Raðið makkarónum á botninn og hellið vel af Baileys yfir. Þeytið 500 ml af rjóma. Geymið smá rjóma til hliðar.
- Skerið kassa af jarðarberjum niður í litla bita (gott að geyma nokkur ber til skreytinga) og blandið saman við rjómann.
- Dreifið rjómanum vel yfir makkarónurnar. Setjið marengsið ofan á rjómann og þrýstið varlega á marengsið svo að hún festist.
- Takið rjómann sem þið lögðuð til hliðar og smyrjið hliðina vel.
- Skreytið með Baileys-súkkulaði og með berjum að eigin vali.
Baileys-súkkulaði
- 3 msk. Baileys
- 2 msk. rjómi
- 75 gr. suðusúkkulaði
Albert Eiríksson, Ingibjörg Anna Hinriksdóttir og Bergþór Pálsson ásamt sigurvegara keppninnar, jarðarberja- og Baileys-tertunni.
mbl.is/AE