Að finna á réttu tónlistina til að hlusta á, meðan eldað er, getur verið eins og að reyna að para rétta vínið til að fara með góðri máltíð. Það fer að sjálfsögðu eftir smekk hvers og eins á hvað best fer á fóninum á meðan hrært er í pottum og svissað á pönnum. Hinsvegar hljóp á snærið hjá okkur á dögunum þegar við fundum músíklista sem allir alvöru matgæðingar ættu að hafa mætur á, þessi lagalisti inniheldur nefnilega bara matartengd lög. Meistararnir á The Manual hafa stritað við að setja saman þennan stórgóða lagalista þar sem má meðal annars finna slagara á borð við Strawberry Fields Forever með Bítlunum, Rock Lobster með The B52’s, og Breaking Bread með Johnny Cash.
Þessi lagalisti hefur vakið mikla kátínu hér á matarvefnum og það hefur ekki væst um okkur tónlistarlega séð eftir að hann uppgötvaðist. Við viljum meina að ritstjórnin hafi náð nýjum hæðum í eldhúsinu með þessum tónum, enda jafnast fátt á við að fyllast innblæstri á meðan við marinerum, grillum og hrærum við tónlist sem hefur verið sett saman af einskærri matarást.