Franska súkkulaðikakan hans Gumma Ben

Stórkostlega girnileg kaka.
Stórkostlega girnileg kaka. mbl.is/Eva Laufey

Gummi Ben leynir á sér og hér deilir vinkona hans, Eva Laufey, uppskrift að franskri súkkulaðiköku sem kemur frá honum. Sjálf segist hún fremur hissa á þessu og að þetta sé sjálfsagt í fyrsta og síðasta sinn sem hún deili uppskrift frá honum. 

Hann sé hins vegar mjög góður í að búa til góðar súkkulaðisósur en það hafi sýnt sig og sannað í hinum stórskemmtilegu þáttum Ísskápastríð. 

„Þetta er algjör súkkulaði-og karamellubomba sem á erindi inn á hvert heimili, strax í dag helst. Sósan er svo góð að þið getið borðað hana eina og sér, en það er svona skemmtilegra að bera sósuna fram með einhverju góðu eins og til dæmis þessari köku,“ segir Eva Laufey um frönsku súkkulaðikökuna hans Gumma Ben. 

Frönsk súkkulaðikaka með Dumle-karamellusósu

  • 200 g smjör
  • 200 g súkkulaði
  • 200 g sykur
  • 4 egg
  • 1 dl hveiti
  • 1 poki Dumle-karamellur (110 g)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Þeytið saman sykur og egg þar til blandan er orðin létt og ljós.
  3. Bræðið smjör og súkkulaði við vægan hita, þegar súkkulaðiblandan er tilbúin þá hellið þið henni varlega saman við eggjablönduna.
  4. Sigtið hveiti saman við í lokin.
  5. Klæðið hringlaga bökunarform með bökunarpappír eða smyrjið formið vel, hellið deiginu í formið og setjið Dumle-karamellur ofan á.
  6. Bakið við 180°C í 30 mínútur.

Dumle-sósan hans Gumma

  • 1 poki Dumle-karamellur (110 g )
  • 1 dl rjómi

Aðferð:

  1. Bræðið karamellurnar í rjómanum við vægan hita, hrærið vel í á meðan svo hún brenni alls ekki.
  2. Hellið sósunni yfir kökuna þegar þið hafið tekið hana úr forminu.
  3. Berið fram með ferskum jarðarberjum til dæmis. Og ís, það má ekki gleyma ísnum.
Gummi Ben kann klárlega réttu handtökin í eldhúsinu.
Gummi Ben kann klárlega réttu handtökin í eldhúsinu. mbl.is/Eva Laufey
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka