Í Sviss tíðkast að borða svokallað Zopf brauð á sunnudögum, helst með þykku lagi af smjöri og sultu. Þeir hata ekki sultu í Sviss. Zopf brauð er hvítt fléttubrauð sem er einstaklega auðvelt að baka og bráðnar í munni, en zopf þýðir einmitt flétta. Þetta brauð er fullkomið fyrir sunnudagsbaksturinn í næstu dögurð, en þessi uppskrift dugar í tvö brauð.
Svissneskt sunnudagsbrauð
- 1 kg. hvítt hveiti
- 1 msk. salt
- 30 gr. ger
- 1 tsk. sykur
- 125 gr. mjúkt smjör
- 7 dl. mjólk
- 1 eggjarauða
Aðferð
- Blandið saman hveiti og salti í skál, bætið við geri, sykri, smjöri og mjólk og hnoðið þar til deigið er mjúkt og laust við kekki. Það tekur um 10 mínútur að hnoða deigið í höndunum, en um 5 mínútur ef þið notið hrærivélina.
- Þegar deigið er hnoðað má breiða viskustykki yfir skálina og leyfa deiginu að hefast í um eina klukkustund.
- Skiptið deiginu í tvo jafna hluta, hnoðið í lengjur og fléttið hlutana saman. Leggið deigið því næst á bökunarpappír í ofnskúffu og penslið með vatni. Leyfið því þá að lyfta sér aftur í 60 mínútur.
- Þegar deigið hefur hefast nægilega má pensla það með eggjarauðunni, stinga inn í ofn og baka í 45-55 mínútur við 200 gráður.
- Njótið með smjöri og sultu.