Salat er ekki bara salat eins og alþjóð veit og oftar en ekki rekst maður á salat sem er svo forkunnarfagurt að það hálfa væri nóg. Þetta salat er eitt þeirra og ekki spillir fyrir að það er sérlega bragðgott, passar vel með nánast öllum mat og er afskaplega fljótlegt.
Ef ekki gefst tími til að sjóða rauðrófu fyrir salatið, þá má vel flýta fyrir sér með því að nota eldaðar rauðrófur sem fást tilbúnar í matvörubúðum. Ef þið hafið ekki smekk fyrir geitaosti, þá má skipta honum út fyrir góðan fetaost.
Athugið að rauðrófurnar geta litað ostinn svo hann verður fagurbleikur. Best er þá að setja salatið saman rétt áður en það er borið á borð svo hann haldist hvítur. Hægt er að bera salatið fram á fati, en ef það er borið fram í tréskál er þjóðráð að skera hvítlauksrif í tvennt og nudda því innan í skálina, þá kemur svakalega góður hvítlaukskeimur af salatinu.
Rauðrófusalat með geitaosti
- 1 kg. heil rauðrófa
- 2 hvítlauksgeirar
- Timjan
- Edik
- Ólífuolía (til að baka rauðrófurnar)
- 60 ml. vatn
- 3 msk. ólífuolía
- 1 msk. rauðvínsedik
- 150 gr. klettasalat
- 150 gr. geitaostur
- 40 gr. ristaðar valhnetur
- Salt og pipar
Aðferð
- Hitið ofninn í 180 gráður.
- Setjið rauðrófuna í heilu lagi í eldfast mót ásamt hvítlauksgeirum og timjan eftir smekk. Slettið smá af ediki í mótið og hellið ólífuolíu yfir rófuna. Kryddið með salti og pipar.
- Hellið vatninu í botninn á mótinu og breiðið álpappír yfir, stingið mótinu inn í ofn og bakið í 45 mínútur. Ef þú stingur hnífi í rófuna og hann rennur auðveldlega í gegnum miðjuna, þá er rófan tilbúin. Þegar rófan er til má setja hana til hliðar og leyfa henni að kólna. Þegar hún er nægilega köld má ýta fingrunum niður með rófunni og flusið ætti þá að losna auðveldlega af.
- Hrærið saman 3 matskeiðum af ólífuolíu og 1 matskeið rauðvínsedik í stórri skál. Kryddið blönduna með salti og pipar. Skerið rauðrófubitana í 2 sentímetra teninga og bætið út í blönduna og veltið þeim vel upp úr leginum.
- Setjið klettasalat á gott fat og leggið rauðrófurnar yfir salatið fyrir miðju. Skerið geitaostinn gróflega niður og bætið ofan á rauðrófurnar. Myljið valhneturnar þar næst yfir og berið fram.
v