Vegan súkkulaðikaka Niguellu

Við erum heldur betur ánægð að finna ljúffenga vegan uppskrift …
Við erum heldur betur ánægð að finna ljúffenga vegan uppskrift sem engin önnur en Nigella hefur lagt blessun sína yfir. mbl.is/nigella.com

Drottning smjörs og rjóma, Nigella Lawson, hefur deilt sinni eftirlætis uppskrift af vegan-tertu. Við höfum reynt við marga vegan-uppskriftina og oftar en ekki endar það svo, að okkur finnst við vera að maula sand. Já það er snúið að finna góða uppskrift sem inniheldur engar dýra-afurðir og erum við því kampakát hér á matarvefnum að finna ljúffenga vegan uppskrift sem engin önnur en Nigella hefur lagt blessun sína yfir.

Vegan súkkulaðikaka Nigellu

Í kökuna fer:

  • 225 gr. hveiti
  • 1 ½ tsk. matarsódi
  • ½ tsk. sjávarsalt
  • 1 ½ tsk. instant espresso kaffiduft
  • 75 gr. kakó
  • 300 gr. púðursykur
  • 375 ml. heitt vatn
  • 75 gr. kókosolía
  • 1 ½ tsk. eplaedik
  • 1 msk. æt rósablöð
  • 1 msk. brytjaðar pistasíu hnetur 

Í kremið fer:

  • 60 ml. kalt vatn
  • 75 gr. kókossmjör (ekki kókosolía)
  • 50 gr. púðursykur
  • 1 ½ tsk. instant espresso kaffiduft
  • 1 ½ msk. kakó
  • 150 gr. dökkt súkkulaði brytjað


Aðferð

  1. Við byrjum á því að búa til kremið. Setjið allt innihaldið sem á að fara í kremið, nema súkkulaðið, í pott og náið upp suðu. Hrærið þar til blandan er laus við kekki og flauelsmjúk að áferð. Slökkvið þá á hitanum, en leyfið pottinum að standa á hellunni og bætið brytjaða súkkulaðinu saman við og hrærið þar til komin er dökk og glansandi glassúr-krem. Látið standa í pottinum og kólna, en hrærið af og til í blöndunni.

  2. Takið 20 sentímetra stórt hringlótt kökuform og klæðið það að innan með bökunarpappír. Kveikið á ofninum og stillið á 180 gráður, 160 gráður ef þið notið blástur.

  3. Blandið saman hveiti, matarsóda, salti og instant espresso kaffidufti ásamt kakói í skál.

  4. Í aðra skál skal blanda saman sykri, vatni, kókosolíu og ediki þar til kókosolían hefur bráðnað vel saman við. Þá má bæta þurrefnunum saman við eitt af öðru og hræra vel á milli.

  5. Hellið í kökuformið og bakið í 35 mínútur. Takið stöðuna á kökunni eftir 30 mínútur til að sjá hvort hún er tilbúin. Þegar kakan er til þá hefur hún losnað aðeins frá brúnum mótsins og hægt er að stinga í hana prjóni sem kemur hreinn tilbaka. Athugið samt að kakan á að vera mjúk og rök svo gæta verður þess að ofbaka hana ekki. Þegar kakan er tilbúin má taka hana úr ofninum og leyfa henni að kólna alveg.

  6. Hrærið vel í kökukreminu, það á að vera nægilega þunnt svo það renni vel yfir kökuna, en þó það stíft að það sitji vel ofan á henni. Þegar kakan hefur kólnað nægilega vel má hella kreminu yfir kökuna og nota sleikju til að renna kreminu að brúnunum.

  7. Skreytið kökuna með ætum rósablöðum og brytjuðum pistasíuhnetum, eða bara því sem hugann girnist, svo lengi sem það er vegan. Leyfið kökunni að standa í að minnsta kosti 30 mínútur áður en hún er borin á borð til að leyfa kreminu að stífna vel.
Kakan er skreytt með ætum rósablöðum og brytjuðum pistasíuhnetum.
Kakan er skreytt með ætum rósablöðum og brytjuðum pistasíuhnetum. mbl.is/nigella.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert