Grænt íste með engifer og hunangi

Þetta bragðgóða íste er afar auðvelt í undirbúningi og dásamlega …
Þetta bragðgóða íste er afar auðvelt í undirbúningi og dásamlega frískandi með ferskri myntu, engifer, hunangi og sítrónu. mbl.is/KarenBitonCohen

Þegar sumarið er loksins komið og þessi gula lætur sjá sig, að minnsta kosti annað slagið, er gaman að dúlla sér í eldhúsinu við að blanda saman kælandi sumardrykki. Þetta bragðgóða íste er afar auðvelt í undirbúningi og dásamlega frískandi með ferskri myntu, engifer, hunangi og sítrónu. Það er gott að eiga könnu af góðu ístei í ísskápnum að grípa til þegar gesti ber að garði, og til að svala sárasta þorstanum í sumarhitanum.

Grænt íste með engifer, hunangi og ferskri myntu

  • 1 og ½ líter vatn
  • ¼ bolli engifer
  • 3-6 pokar af góðu grænu tei
  • ½ bolli fersk mynta
  • 1/3 bolli hunang
  • 1 sítróna

Aðferð

  1. Takið meðalstóran pott og hellið vatninu í. Flysjið og skerið engifer í þunnar sneiðar. Náið upp suðu og bætið engifer út í pottinn og náið upp suðu. Þegar vatnið hefur soðið stutta stund má taka pottinn af hellunni og bæta við tepokunum og myntunni. Ef tepokarnir eru með spotta og miða á er gott að klippa þá burt áður en tepokunum er skellt í pottinn. Setjið lokið á pottinn og leyfið honum að standa í 15 mínútur.

  2. Fiskið engiferinn og tepokana úr pottinum. Blandið hunangi saman við og kreistið safa úr hálfri sítrónu og bætið út í pottinn. Þegar teblandan hefur kólnað nægilega í pottinum má hella teblöndunni í stóra könnu og setja inn í ísskáp.

  3. Þegar bera skal teið fram má skera hinn helminginn af sítrónunni og bæta 1-2 sneiðum í hvert glas, ásamt nokkrum laufum af ferskri myntu og ísmolum.
Engifer er meinhollt og fer afskaplega vel í ístei.
Engifer er meinhollt og fer afskaplega vel í ístei. mbl.is/KarenBitonCohen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert