Svona pantar þú vín eins og fagmaður

Sumir kannast við það a sitja sveittir í lófunum á fínum veitingastað og stara á vínlistann án þess að hafa hugmynd um hvað panta skal. Það er víst algengt að gestir veitingahúsa frjósi fastir í sætum sínum þegar velja á vín og líða eins og þeir viti ekkert í sinn haus. En óttist ekki, Giovanni Bonmartini-Fini, eigandi hinna ítölsku Barone-Fini vínframleiðslu, og Anthony Riboli, eigandi Riboli vínekrunnar í Kaliforníu, deildu á dögunum góðum ráðum til að panta vín á veitingahúsum af öryggi og fumleysi.

#1 Treystu veitingastaðnum
Veitingastaðurinn hefur valið vínin sem þeir bjóða upp á af kostgæfni. Þeim mun betur sem viðskiptavinum líkar við vínin, því meira selja þeir. Treystu því að jafnvel ódýrasta flaskan hafi verið valin vegna þess að vínið er gott.

#2 Stattu með því sem þér líkar og líkar ekki
Ekki láta besservissera og vínsnobbara snúa þér. Segðu þjóninum hvaða vín þér fellur í geð og hvaða tegund verður oftast fyrir valinu hjá þér, þjóninn ætti auðveldlega að geta mælt með einhverju svipuðu.

#3 Fáðu ráðleggingar
Ef að þjóninn getur ekki mælt með víni sem þér líkar biddu hann eða hana um að senda yfirþjón, vínþjón eða jafnvel kokkinn yfir á borðið til þín. Það er mikilvægt að stressast ekki upp og ákveða fyrirfram að starfsfólkinu finnist þú algjör asni af því þú veist ekki hvað þú vilt. Þau eru þarna til að veita þér þjónustu og ánægjulega upplifun. Láttu þau mæla með nokkrum valmöguleikum út frá því hvaða vín þér fellur vel í geð.

#4 Fáðu að smakka
Þú ættir alltaf að fá að smakka sopa af víninu áður en það er borið á borð. Það er í góðu lagi að fá að smakka fleira en eitt vín, sérstaklega ef hægt er að panta eitt glas af víninu. Ef hægt er að panta glas af víni þá þýðir það að þeir eru með flösku af því opna nú þegar svo auðvelt er að fá að smakka. Ekki vera hrædd við að biðja um að fá að smakka fleira en eitt vín áður en þú tekur ákvörðun.

#5 Spurðu hvenær flaskan var opnuð
Áður en skenkt er í glasið er gott að spyrja hvenær vínflaskan var opnuð. Vín sem hefur verið opið of lengi missir bragðið, og vill Bonmartini-Fini meina að það gildi sérstaklega um hvítvín. Enginn vill drekka vín sem hefur verið opið í meira en tvo daga. Jafnvel þó að þjóninn viti ekki nákvæmlega hvenær flaskan var opnuð ætti þetta að ýta við honum eða henni til að skenkja þér vín sem hefur nýlega verið opnað. Ekki hika við að biðja þau um að opna nýja flösku ef þörf er á. Þú hefur fullan rétt á því að hafna víni sem vantar allt bragð því flaskan hefur setið opin of lengi.

#6 Drekktu það sem þér finnst gott
Riboli mælir með því að sitja ekki of föst í reglum um hvað fer best með hverju. Ef þér finnst gott að drekka rauðvín með sushi eða að fá þér hvítvínstár með steikinni, þá skaltu bara gera það. Oft ef par er að borða á veitingastað og einn pantar fisk og hinn kjöt hætta þau við að deila flösku og panta sitthvort glasið af rauðu og hvítu í staðin. En ef þið ákveðið að deila flösku þrátt fyrir það þá mælir Riboli með pinot noir, það fer víst afar vel með kjöti en virkar einnig stórvel með kjúkling, svínakjöti og fiski.

Ekki sitja ekki of föst í reglum um hvað fer …
Ekki sitja ekki of föst í reglum um hvað fer best með hverju. Ef þér finnst gott að drekka rauðvín með sushi eða að fá þér hvítvínstár með steikinni, þá skaltu bara gera það. mbl.is/pinterest
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert