Það er misjafnt hvað vefst fyrir mönnum og konum í eldhúsinu, og einföldustu hlutir geta virst ansi strembnir stundum. Þar að auki kemst maður oftar en ekki að því, að maður kann bara alls ekki að gera eitthvað, sem maður hélt þó að maður væri með alveg á hreinu. Gott dæmi um þetta er listin að skera ananas. Flestir láta það duga að skera hart flusið burt og saxa aldinið svo niður í bita, en það er víst ekki aldeilis nóg. Það er aldrei of seint að tileinka sér góða tækni í eldhúsinu og hafa meistararnir á Serious Eats birt leiðbeiningar um hvernig er best að skera ananas svo aldinkjötið nýtist sem best, og svo ávöxturinn verði sem fallegastur á diski.
1. Skerið toppinn af ananasnum
Það er best að skera toppinn af neðar en þið haldið að þurfi, því efsta lagið er oft frekar seigt undir tönn.
2. Skerið botninn af ávextinum af
Hér gildir sama regla og um toppinn, skerið meira burtu en þið haldið að þurfi, neðsta lagið er líka seigt og hart.
3. Skerið flusið frá
Setjið ananasinn upp á rönd og skerið flusið frá niður með hliðunum þar til allt er farið. Hérna skiptir mestu máli að reyna að skera sem þynnst lag burt til að ná sem mestu aldinkjöti. Takið einungis það sem þarf, svo að ekki sé eftir neitt dökkgrænt flus. Ekki hafa áhyggjur af deplunum sem eftir eru, við tæklum þá á eftir.
4. Reynið að sjá mynstur í deplunum
Þegar þið hafið skorið burt allt flus frá hliðunum þá ættuð þið að geta séð mynstur í deplunum sem eftir sitja í ávextinum, ef vel er að gáð. Þeir liggja í línu á ská niður með hliðum ávaxtarins.
5. Skerið deplana burt
Skerið meðfram deplunum sem liggja í skálínu niður með ananasnum. Best er að beita hnífnum á ská svo hann rétt renni undir deplana. Ekki skera of langt niður í aldinkjötið.
Skerið svo aftur á móti fyrsta skurðinum, á ská niður með deplunum svo úr verði einskonar bátur og fjarlægið.
6. Skerið burt alla deplana
Vinnið ykkur hringinn í kring um ávöxtinn og skerið deplana burt í bátum. Eftir situr ananasinn án depla.
7. Skerið ananasinn í tvennt
Næsta skref er að skera ananasinn í tvo langsum helminga.
Og svo er þessir tveir helmingar skornir aftur í tvennt svo eftir sitja 4 bitar af ananas.
8. Fjarlægið miðjuna
Svipað og toppstykki ávaxtarins þá getur miðjan verið seig og vond svo best er að fjarlægja hana. Setjið bitann upp á rönd og skerið langsum niður með miðjunni og fjarlægið kjarnann. Þið getið notað fingurna og þreifað meðfram miðjunni og finnið hvar aldinkjötið byrjar að harðna í kringjum miðjuna og skerið þar.
9. Skerið aldinkjötið í bita
Skerið hvern fjórðung í munnstóra bita. Hér er gott að skera þversum á ávöxtinn svo að fallega skámunstrið fái að njóta sín.
10. Berið á borð
Raðið sneiðunum upp á disk. Fallegt er að stilla toppinum með á diskinn. Njótið í botn og í guðanna bænum farið varlega með hnífinn.
Heimild: Serious Eats