Grænmeti er lang besta meðlæti sem hægt er að fá með grillmat og við fengum Silviu Carvalho til þess að setja saman fyrir okkur tvo afar einfalda grænmetisrétti sem passa með öllum mat.
Silvía brást ekki frekar en fyrri daginn og hér býður hún upp á sáraeinfalda en bragðgóða grillaða tómata sem eru í uppáhaldi hjá flestum. Að auki er hún með grillað grænmeti sem er sérlega skemmtilegt. Þar blandar hún saman grilluðu grænmeti og fersku og útkoman er alveg hreint upp á tíu!
Silvia útskrifaðist sem kokkur á dögunum en hefur starfað við fagið í fjölda ára hér á landi. Það leikur flestallt í höndum hennar en við fengum hana til þess að grilla fyrir okkur grænmeti og uppleggið var að hafa það eins einfalt og kostur er.
Grillað tómatasalat að hætti Silvíu.
mbl.is/Valli
Grillað tómatasalat
Fyrir 4
- 3 buff tómatar
- Extra virgin-ólífuolía
- 1 hvítlaukur
- 1 msk. söxuð steinselja
- ferskt basil
- sjávarsalt
- svartur pipar
Aðferð:
- Hitið grillið vel. Skerið tómatana í sneiðar og grillið þá í 2-3 mínútur á hvorri hlið eða komnar eru fallegar línur.
- Setjið á disk og kryddið með salti, pipar, steinselju og basil og sullið ólífuolíu yfir. Mjög einfalt en ákaflega bragðgott.
Fullkomið meðlæti með grillmatnum
mbl.is/Valli
Grillað grænmeti
Fyrir 4
- 3 paprikur í sitthvorum litnum
- 1 kúrbítur
- 1 eggaldin
- 2 rauðlaukar
- 1 sítróna
- 1 msk. saxað ferskt kóríander
- 1 msk. söxuð fersk minta
- 1 vorlaukur, saxaður
- 1 rauður chili, skorinn í þunnar sneiðar
- 1 hvítlaukur, saxaður
- salt
- pipar
- Extra virgin-ólífuolía
Aðferð:
- Hitið grillið vel. Skerið kúrbítinn og eggaldin í sneiðar, laukinn í báta og sítrónuna í tvennt. Grillið grænmetið og leyfið húðinni á paprikunni að brenna örlítið því þá er auðveldara að ná húðinni af).
- Hamflettið og fræheinsið paprikuna þegar hún er tilbúin. Setjið allt grænmetið í stóra skál, bætið við kóríander, mintu, vorlauk, chili, hvítlauk og ólífuolílu og kryddið með salti og pipar.
Silvía Carvalho er mikill meistarakokkur.
mbl.is/Valli