Coq au vin Júlíu Child

Julia Child er bet þekkt fyrir að kynna franska matargerð …
Julia Child er bet þekkt fyrir að kynna franska matargerð fyrir löndum sínum í Bandaríkjunum en vinsælasta matreiðslubók hennar ber einmitt heitið Mastering the Art of French Cooking. mbl.is/Paul Child/WGBH

Flestir kannast við frú Child, og ef ekki þá mælum við eindregið með því að horfa á bíómyndina Julie&Julia, gott ef hún er ekki á Netflix. Julia Child er þar meistaralega vel leikin af engri annarri en Meryl Streep. Allir alvöru áhugamenn og konur um mat og matargerð ættu að vita hver Julia Child er. Fyrir þá sem eru í vafa var hún amerískur kokkur, rithöfundur og með ákaflega vinsæla sjónvarpsþætti á sjötta og sjöunda áratugnum. Hún er best þekkt fyrir að kynna franska matargerð fyrir löndum sínum í Bandaríkjunum og vinsælasta matreiðslubók hennar ber einmitt heitið Mastaring the Art of French Cooking. Þar má finna hina víðfrægu uppskrift af franska réttinum Coq au vin sem við birtum hér að neðan.

Fyrir þá sem vilja dekstra aðeins við kjúklinginn má láta hann liggja í rauðvínslegi í ísskáp yfir nótt. Þennan rétt má líka gera deginum áður en á að bera hann fram og geyma í ísskáp yfir nótt og hita svo upp, þá er kjúklingurinn búinn að sjúga í sig allt dásamlega bragðið af sósunni og er ennþá betri fyrir vikið. Það er líka alveg fyrirtak að gera þennan rétt í steypujárnspotti ef hann er til á heimilinu. 

Coq au vin Júlíu Child

  • 200 gr. þykkt skorið beikon
  • 2 msk. ólífuolía
  • 1.5-2 kg. kjúklingur
  • ¼ bolli koníak
  • salt og pipar
  • 1 lárviðarlauf
  • ¼ tsk. þurrkað timjan
  • 20 perlulaukar
  • 3 msk. hveiti
  • 2 bollar rauðvín
  • 2 bollar kjúklingakraftur
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 msk tómatpúrra
  • 340 gr. sveppir
  • steinselja til skreytingar

Aðferð

  1. Hellið 2 msk. af olíu í stóran pott og skerið beikonið í þykka bita og hendið í pottinn og steikið á meðalháum hita þar til það brúnast vel, eða í um 2-3 mínútur. Færið þá beikonið yfir á disk en skiljið feitina eftir í pottinum.

  2. Ef þið eruð með heilan kjúkling verður að bita hann niður, læri, bringa, og svo framvegis. En einnig má kaupa leggi og bringur til að nota í réttinn, en húðin verður að vera á kjúklingnum. Þurrkið kjúklinginn vel og setjið bitana í pottinn og steikið í olíunni af beikoninu. Snúið bitunum reglulega þar til allar hliðar eru vel brúnaðar.

  3. Hellið því næst koníakinu í pottinn og bíðið þar til það fer að krauma. Kryddið þá með salti og pipar, bætið lárviðarlaufinu í pottinn, ásamt lauknum. Setjið lokið á pottinn og látið þetta krauma á lágum hita í um 10 mínútur, en snúið bitunum allavega einu sinni á þeim tíma.

  4. Takið lokið af pottinum og dreifið hveiti yfir allt, snúið kjúklingabitunum aftur svo að hveitið leysist upp í soðinu. Setjið lokið aftur á og leyfið þessu að krauma í 2-4 mínútur.

  5. Takið pottinn af hellunni og bætið við rauðvíninu og kjúklingakrafti þar til blandan nær örlítið upp fyrir kjúklinginn. Hægt er að leysa teninga af kjúklingakrafti upp í vatni og bæta við tveimur bollum. Bætið þá við beikoninu, 2 geirum af hvítlauk sem er skorinn smátt eða kraminn með hvítlaukspressu, og tómatpúrru. Setjið lokið á pottinn og leyfið þessu að malla á lágum hita í 25-30 mínútur. Að lokum má bæta sveppunum við, en þeir ættu að vera skornir í fjórðunga, og leyfa þeim að sjóða með í 4-5 mínútur.

  6. Að þeim tíma loknum skal athuga hvort kjúklingurinn er tilbúinn. Ef þið stingið hníf í bita af kjúklingi á ekki að sjást í bleikt kjöt og safinn sem rennur úr bitanum á að vera glær að lit. Þegar kjúklingurinn er nægilega vel eldaður má smakka sósuna til, og krydda meira ef þörf er á. Sósan ætti að að vera nægilega þykk til að sitja utan á kjúklingnum. Ef ykkur finnst hún of þunn má hækka hitann og sjóða hana örlítið niður, en þá er gott að taka kjúklinginn upp úr pottinum og geyma á diski á meðan svo hann ofeldist ekki. Ef sósan er of þykk má þynna hana með kjúklingakrafti leystum upp í vatni.

  7. Berið réttinn strax á borð, gott er að strá saxaðri steinselju yfir og bera fram með hrísgrjónum eða kartöflumús, nú eða bara réttinn einan og sér.
Coq au vin má gera deginum áður en á að …
Coq au vin má gera deginum áður en á að bera hann fram og geyma í ísskáp yfir nótt og hita svo upp, þá er kjúklingurinn búinn að sjúga í sig allt dásamlega bragðið af sósunni. mbl.is/gimmesomeoven
Julia Child var ákaflega sjarmerandi og skemmtileg kona. Við mælum …
Julia Child var ákaflega sjarmerandi og skemmtileg kona. Við mælum með að fólk lesi ævisögu hennar sem ber heitið My Life in France og er eftir hana sjálfa og Alex Prud'homme. mbl.is/Marc Riboud/Magnum via NYT
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka