Kakan sem tryllir barnaafmælið

mbl.is/awwsam

Þessi ofvaxna kleinuhringjakaka kemur til með að slá í gegn í barnaafmælum, nú eða bara hjá þeim sem kunna að meta kleinuhringi. Hún lítur út fyrir að vera mikið maus að baka, en það kemur reyndar á óvart hversu auðvelt það er í framkvæmd að útbúa hana. Það eina sem þarf er um það bil 23 sentímetra hringlótt kökuform. Það má vel tvöfalda uppskriftina af kökunni og baka tvö form og setja þá helminga saman ef þið viljið stærri köku. Einnig má leika sér með glassúrinn og skrautið. Þessi uppskrift kemur úr bókinni Donuts: Over 50 Inventive and Easy Recipes for Any Occation, eftir Vicky Graham, en hún er alveg ofboðslega skemmtileg og sniðug fyrir áhugafólk um kleinuhringi.

Risavaxin kleinuhringjakaka

Í kökuna fer:

  • 230 gr. smjör
  • 230 gr. sykur
  • 4 meðalstór egg
  • 230 gr. hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • klípa af salti
  • 2 msk. mjólk

Í glassúrinn fer:

  • 500 gr. flórsykur
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 50 ml. mjólk
  • bleikur eða rauður matarlitur

Í kökuskrautið fer:

  • 1 pakki af hvítum sykurmassa
  • matarlitur að eigin vali
  • eða 2 pakkar af smarties 

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180 gráður og smyrjið feiti innan í hringlótta kökuformið.

  2. Setjið smjör og sykur í hrærivélaskál og þeytið þar til það er orðið létt og ljóst.

  3. Bætið við eggjunum, eitt í einu, og setjið eina skeið af hveiti með hverju eggi. Hrærið svo afganginum af hveitinu gætilega saman við, ásamt lyftidufti og salti. Passið vel að ofhræra ekki blönduna. Svo má bæta við mjólkinni.

  4. Setjið deigið í formið og bakið í ofninum á 180 gráður í 25 til 30 mínútur. Stingið prjóni í miðju kökunnar til að sjá hvort að hún er tilbúin. Hún er tilbúin ef prjónninn kemur hreinn tilbaka. Leyfið kökunni að kólna vel.

  5. Þá gerum við glassúrinn. Setjið flórsykur, vanilludropa og helminginn af mjólkinni, eða 25 ml., í skál og hrærið vel. Bætið afganginum af mjólkinni smám saman við á meðan þið hrærið stanslaust í glassúrnum. Að lokum má bæta við nokkrum dropum af rauðum eða bleikum matarlit þar til þið hafið náð fram þeim lit sem þið eruð ánægð með.

  6. Til að gera kökuskrautið skal skipta einum pakka af hvítum sykurmassa í fjóra helminga. Litið hvern helming með matarlit að eigin vali. Rúllið út litla pulsu-laga rúllur með höndunum sem koma til með að líta út eins og risa kökuskraut. Ef þið viljið stytta ykkur leið hérna má nota smarties í staðin fyrir að búa til kökuskraut úr sykurmassa.

  7. Þegar kakan er nægilega köld má hræra vel í glassúrnum og hella honum svo yfir kökuna, eða smyrja honum á með sleikju. Það er best að koma kökuskrautinu fyrir á áður en glassúrinn harðnar alveg á kökunni. Leyfið glassúrnum samt að harðna vel áður en kakan er borin fram.
Þessi kaka lítur út fyrir að vera mikið maus að …
Þessi kaka lítur út fyrir að vera mikið maus að baka, en það kemur á óvart hversu auðvelt það er að útbúa hana. mbl.is/awwsam
Það er um að gera að leika sér með glassúrinn …
Það er um að gera að leika sér með glassúrinn og skreytingarnar, bleikur glassúr fyrir jarðaberja-kleinuhring eða búa til brúnan glassúr fyrir súkkulaði-kleinuhring. mbl.is/awwsam
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert