Kakan sem sögð er besta súkkulaðikaka í heimi

Besta súkkulaðikaka í heimi lítur heldur sakleysislega út.
Besta súkkulaðikaka í heimi lítur heldur sakleysislega út. mbl.is/ReubenMourad

Til er súkkulaðikaka sem er orðin goðsagnakennd um víða veröld. Kakan er svo eftirsótt að fólk ferðast víðs vegar að úr heiminum til þess eins að fá að sökkva tönnunum í lungamjúka sneið af henni. Þessi kaka fæst einungis í agnarsmárri búð í Lissabon í Portúgal og er enginn maður með mönnum eða kona með konum nema að koma við í þessari búð, ef fólk er á annað borð í borginni. Finnst kakan í Campo d’Ouriqu-hverfinu og heitir búðin „O Melhor Bolo de Chocolate do Mundo“, sem myndi líklegast þýðast sem „Besta súkkulaðikaka í veröldinni.“ Búðin sjálf er lítið meira en hola í vegg, tekur aðeins átta manns í sæti og eru veggirnir þaktir í blaða og tímaritaúrklippum sem fjalla um kökuna frægu. Ekki er boðið upp á neitt annað í búðinni en súkkulaðikökuna, nema þá kannski kaffibolla til að skola henni niður með. 

Kakan er ekki týpísk svampkaka, heldur er hún bökuð án hveitis og byggð upp af lögum af stökkum súkkulaði-marengs með þykku lagi af mjúkri súkkulaðimús inn á milli og hjúpuð glansandi súkkulaði-ganache. Kakan er ekki mikið skreytt og lítið er lagt upp úr fínni framsetningu, enda er það algjör óþarfi með svona góða köku. Bragðið segir það sem segja þarf og stendur fyrir sínu. Segja þeir sem heimsótt hafa búðina að kakan sé svo góð að augun rúlli aftur í hnakka við fyrsta munnbita. En bragð og áferð mætast víst svo vel að úr verður algjört súkkulaði-himnaríki. Við mælum því með að mataráhugafólk og súkkulaðifíklar, sem eiga leið til Lissabon, geri sér leið í búðina góðu og fái sér sneið af þessari goðsagnakenndu köku. Það ku vera vel þess virði. 

Svona lítur inngangurinn út að búðinni sem selur bestu súkkulaðiköku …
Svona lítur inngangurinn út að búðinni sem selur bestu súkkulaðiköku í heimi. mbl.is/Diana
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert