Hjúkrunarfræðingurinn Berglind Guðmundsdóttir er konan á bak við eina vinsælustu matarsíðu landsins, Gulur, rauður, grænn og salt. Kom nafnið til vegna þess að Berglind elskar litríkan mat, því fleiri litir því betra. Eru uppskriftirnar þó einfaldar og á allra færi og hefur hún gefið út matreiðslubók með sama nafni sem inniheldur einfaldar uppskriftir af litríkum réttum frá öllum heimshornum. Við heyrðum í þessum hressa sælkera sem trúði okkur fyrir því að hún þolir ekki slímugan mat og væri alveg til í að fá sér í aðra tána með Vigdísi Finnboga.
Kaffi eða te: Rótsterkur kaffibolli – og dagurinn byrjar vel.
Hvað borðaðir þú síðast? Mig langar að segja geggjað nachos með kóresku nautakjöti sem er upphitunarréttur GulurRauðurGrænn&salt fyrir HM. En sannleikurinn er hinsvegar sá að ég var að narta í döðlur.
Hin fullkomna máltíð: Úr of mörgu að velja – en flest allt sem er eldað úr fersku gæðahráefni og gert af ást. Það þarf ekki að vera flókið. Svo bara að muna (sem ég geri oft ekki) að tyggja og njóta hvers munnbita.
Hvað borðar þú alls ekki? Alls ekki slímugan mat. Bara alls ekki. Dettur reyndar ekkert í hug hvaða matur það ætti að vera – en það skiptir ekki máli – ég borða hann ekki.
Avókadó á ristað brauð eða pönnukökur með sírópi? Allan daginn pönnukökur með sírópi.
Súpa eða salat? Ég er þekkt fyrir að elska kjúklingasalat þó ég kunni nú vel að meta góðar súpur.
Uppáhalds veitingastaðurinn: Það er ómögulegt að velja einn uppáhalds enda fer þetta allt eftir stemmningu og tilefni. Þeir sem koma fyrst upp í hugann eru t.d. LAX (og búbblur) á Mathöll Granda, Skál á Hlemmur Mathöll, Snaps, Tapasbarinn, Sumac, Sushi Social og ROK.
Besta kaffihúsið: Te og kaffi – því þar fæ ég besta kaffið.
Salt eða sætt? Sætt.
Fiskur eða kjöt? Bæði.
Hvað setur þú á pizzuna þína? Hvítlauksolíu, pepperoni, döðlur, rjómaost, mozzarella, jalapeno, græn piparkorn.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur borðað? Örugglega eitthvað slímugt.
Matur sem þú gætir ekki lifað án: Ferskt grænmeti er undirstaðan í svo mörgu sem ég elda og ferskar kryddjurtir. Hvítlaukurinn, chili og parmesan koma líka sterk inn.
Uppáhalds drykkur: Vatnið stendur alltaf fyrir sínu. Annars gott rauðvín.
Besta snarlið: Döðlupestóið af GulurRauðurGrænn&salt.
Hvað kanntu best að elda? Einfaldan mat úr ferskum hráefnum.
Hvenær eldaðir þú síðast fyrir einhvern? Ég var með 16 manna gæsahóp í gær þar sem við elduðum saman nokkra rétti.
Uppáhalds eldhúsáhaldið: Skurðarbrettin, skálarnar og hnífarnir frá Joseph Joseph úr EPAL. Tekur lítið pláss og hjálpar mér að halda öllu á sínum stað.
Besta uppskriftarbókin: Fyrir utan matreiðslubækur mínar sem báðar heita GulurRauðurGrænn&salt - verð ég að nefna Fresh & Easy eftir Jane Hornby. Flott bók með bragðgóðum og einföldum uppskriftum sem sýndar eru skref fyrir skref.
Sakbitin sæla: Er orðin of gömul fyrir sakbitna sælu. Borða nú með mjög góðri samvisku.
Uppáhalds ávöxtur: Súkkulaðihúðuð jarðaber.
Besti skyndibitinn: Þessa stundina eru það Kóresku vængirnir á Tokio Sushi – nei sko namm!
Ef þú fengir Vigdísi Finnbogadóttur í mat, hvað myndir þú elda?
Það væri náttúrulega algjörlega frábært að fá þessa flottu konu í mat. Mig minnir að hún hafi einhvertímann unnið sem leiðsögumaður sem segir mér að hún elski að vera út í náttúrunni og það eigum við sameiginlegt.
Ég myndi því bjóða henni í lautarferð á fallegan stað kannski við foss með flottri fjallasýn. Veðrið væri að sjálfsögðu til fyrirmyndar og ætli við færum ekki í létta göngu svona til að byggja upp góða matarlyst. Eftir gönguna myndum við fá okkur eina vel kælda kampavín og skála fyrir lífinu. Ég myndi því næst bjóða upp á franska osta og franskt rauðvín því ég held hún elski Frakkland og margt sem því tengist. Með þessu væri að sjálfsögðu döðlupestóið góða.
Ég myndi áfram halda í einfaldleikann og bjóða upp á reyktan lax með capers, rauðlauk og myntusósu og jafnvel tómata og mozzarellasalat ásamt nýbökuðu súrdeigsbrauði. Hvítvín með því. Við myndum svo klára þennan fína hitting með volgri eplaköku og kaffibolla. Ég myndi samt vera með auka kampavín til öryggis, ef við færum á gott flug.