Það er fátt lekkerara eða bragðbetra en smá pavlóvur eða partí-pavlóvur eins og þær kallast hér. Þær eru bæði fullkomnar í veisluna eða sem eftirréttir. Hægt er að leika sér endalaust með meðlætið en þessi útfærsla slær öll met og við hvetjum ykkur til að prófa.
Partí-pavlovur
50 pínulitlar
- 4 eggjahvítur
- 1 ½ bolli sykur (300 g)
- 1 msk. flórsykur
- 1 msk. edik
- 1 msk. vatn
- 1 tsk. vanilludropar
- 1 poki Appolo-súkkulaðilakkrískurl
Aðferð:
- Hitið ofninn í 220°C, ekki blástur.
- Þeytið allt sem er í uppskriftinni saman í 10 mín.
- Bætið Appolo-súkkulaðilakkrískurli út í og blandið saman við með sleikju.
- Setjið bökunarpappír á tvær bökunarplötur. Festið pappírinn með örlitlu af deigi í hornin.
- Setjið deig með 2 skeiðum í litla toppa á pappírinn, líka má notast við sprautupoka, þær mega vera þétt.
- Setjið þær í ofninn og lækkið jafnframt hitann í 110°C. Bakið í 40 mín. hverja plötu og hækkið hitann aftur í byrjun við seinni plötuna.
- Kælið kökurnar.
- Hægt er að baka á blæstri og baka 2-3 plötur í einu. Þær verða aðeins þurrari en þá er gott að setja rjóma tímanlega á þær svo aðeins blotni í þeim.
Ofan á:
- ½ lítri rjómi
- Bingókúlusósa
- Jarðarber eða hindber
- Myntulauf eða dill
Þeytið ½ lítra af rjóma og setjið rjómatopp ofan á hverja köku ásamt jarðarberi eða hindberi og bingókúlusósu. Fallegt er að skreyta ofan á með brotnum marens.
Bingókúlusósa:
- 1 dl rjómi
- 1 poki Bingólakkrískúlur
Bræðið allt saman í potti og kælið örlítið.