Vinsælasta uppskriftin á Pinterest 2018

Þetta eru súkkulaðibitakökurnar sem hafa slegið í gegn á Pinterest.
Þetta eru súkkulaðibitakökurnar sem hafa slegið í gegn á Pinterest. mbl.is/TheBakingChocolaTess

Vefsíðuna Pinterest kannast margir við, enda margt sniðugt þar að finna. Þar eru ótal hugmyndir að föndri, innanhúshönnun, fatnaði og uppáhaldið okkar auðvitað, matseld. Pinterest hefur nú tekið saman lista yfir þær uppskriftir sem eru vinsælastar og hafa verið prófaðar hvað oftast. Nú býður vefsíðan upp á að fólk geti hlaðið inn mynd af sínum afrakstri eftir að hafa prófað uppskrift á Pinterest, til að sjá hvernig tilraunin tekst til og hversu langt hún er frá fyrirmyndinni. Þetta er bráðsniðugt og vinsælasta uppskriftin á Pinterest, sem lesendur hafa prófað hvað oftast, er uppskrift að hinni fullkomnu súkkulaðibitaköku. Við látum hana fylgja hér að neðan, en listann yfir vinsælustu uppskriftirnar á árinu má finna í heild sinni hér.

Fullkomnar súkkulaðibitakökur

  • 1 og ½ bolli hveiti
  • 1 tsk. matarsódi
  • ½ tsk. salt
  • ½ bolli mjúkt smjör
  • ½ bolli púðursykur
  • 6 msk. sykur
  • 1 stórt egg
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 2 ¼ bolli súkkulaðibitar

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 180 gráður og setjið bökunarpappír á tvær ofnplötur.

  2. Takið meðalstóra skál og blandið saman hveiti, matarsóda og salti.

  3. Blandið vel saman smjöri, sykri, og púðursykri í hrærivél í um 2 mínútur. Bætið svo egginu og vanilludropunum saman við og hrærið á lágri stillingu.

  4. Bætið þar næst hveitiblöndunni saman við í litlum skömmtum og hrærið þar til það er rétt svo blandað við. Gætið þess vel að ofhræra ekki.

  5. Takið súkkulaðibitana og blandið þeim varlega saman við deigið með sleif. Passið einnig að ofhræra ekki.

  6. Ef deigið er heitt skal kæla það með því að stinga því inn í ísskáp í smá stund, þá lyfta kökurnar sér betur og verða síður flatar. Notið meðalstóra skeið til að færa kökudeigið á ofnplöturnar, gott er að miða við 6 til 8 kökur á hverja ofnplötu, það fer þó eftir hversu stórar kökurnar eiga að vera.

  7. Bakið kökurnar þar til brúnirnar eru orðnar ljósbrúnar og toppurinn er stífur þegar þrýst er á hann með fingri. Litlar kökur skal baka í 8-10 mínútur. Stærri kökur skal baka í 10-13 mínútur.

  8. Leyfið kökunum að kólna í 5 mínútur á bökunarplötunni áður en þær eru settar á disk.
Ef deigið er heitt skal kæla það með að stinga …
Ef deigið er heitt skal kæla það með að stinga því inn í ísskáp í smá stund, þá lyfta kökurnar sér betur og verða síður flatar. mbl.is/TheBakingChocolaTess
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert