Aðlagar réttina að Íslendingum

Petra og Emilía taka vel á móti gestum á Bangkok.
Petra og Emilía taka vel á móti gestum á Bangkok. mbl/Arnþór Birkisson

Í annasömu iðnaðarhverfinu við Smiðjuveg í Kópavogi er að finna vinsæla veitingastaðinn Bangkok. Hann er í eigu hinnar brosmildu Emilíu Kanjanaporn sem segir að staðsetningin sé mjög góð. „Hingað fáum við fjölbreyttan hóp af gestum. Sumir keyra langt til að koma til okkar en við fáum líka margt starfsfólk sem vinnur hér í kring sem er duglegt að koma á hádegishlaðborðið okkar.“ Emilía kom til Íslands fyrir um þrjátíu árum. Hún vann í sextán ár á veitingastaðnum Menam á Selfossi en keypti Bangkok fyrir fjórum árum. „Starfsmenn okkar eru fjölskylda og vinir svo hér þekkjast allir mjög vel.“

Emilía segir að réttirnir á staðnum hafi þróast jafnt og þétt. „Ég bætti kannski við smá kryddi hér eða breytti sósunni þar. Um daginn fékk ég krydd frá Taílandi sem ég er forvitin að sjá hvort sé eitthvað fyrir Íslendinga.“ Emilía segir að hún hafi reynt að finna hvað í taílenskri matargerð henti íslenskum bragðlaukum. „Ég hef lengi verið að prófa hvað Íslendingum finnst gott að borða. Til dæmis var fjölskylda mannsins míns ekki mikið fyrir taílenskan mat í fyrstu svo ég þurfti að fara hægt. „Viltu prófa þetta? Smakkaðu þetta.“ Almennt séð þá borða Íslendingar ekki mjög sterkan mat, en hér á Bangkok þykir þeim gott að fá sér sterka rétti,“ segir Emilía, en vinsælasti réttur staðarins, nam tok, á það til að skilja nýgræðinga í taílenskri matarmenningu eftir í svitabaði.

mbl/Arnþór Birkisson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert