Sjóðheitir eldbakaðir ostar

Svo kveikir maður í ostinum og partýið getur byrjað.
Svo kveikir maður í ostinum og partýið getur byrjað. Árni Sæberg

Meistarakokkurinn Aníta Ösp Ingólfsdóttir, sem jafnframt er yfirmatreiðslumeistari á RIO Reykjavík, galdrar hér fram fyrir okkur tvo einfalda rétti sem eru vísir til að létta lundina í annars grámyglulegu sumarskammdeginu. Brie bragðast sérstaklega vel í rigningu, ekki síst þegar búið er að flambera hann eftir kúnstarinnar reglum.

Brenndur brie

  • 1 stk. brie
  • 3 cl viský

Efsta lagið af brie-ostinum er skorið eins þunnt af og hægt er. Síðan er hann settur á disk/form sem þolir 180°C.

Síðan er viskýinu hellt yfir og kveikt í.

Balsamico-hindber

  • 1 box hindber
  • 150 ml vatn
  • 150 ml hvítt balsamik-edik
  • 200 gr. sykur
  • Nokkur rósapiparkorn

Soðið upp á vatninu, balsamikinu og sykrinum. Þá eru rósapiparkornin mulin út í. Látið kólna alveg niður áður en hindberin fara út í. Best er að láta þau liggja í 4-5 klst.

Stökkt brauð

  • 1 stk. Ciabatta-brauð
  • 1 dl sítrónuolía

Brauðið er skorið í örþunnar sneiðar, best er að gera það með örlítið frost í brauðinu. Þá er það penslað með sítrónuolíunni á báðum hliðum og bakað í ofni á 160°C í um það bil 7 mínútur, eða þar til það er gullinbrúnt og stökkt.

Jarðarberja- og appelsínusulta

  • 3 bollar jarðarber
  • 2 stórar appelsínur
  • 3 bollar sykur
  • ½ tsk. xanthan gum

Jarðarberin skorin, appelsínan zestuð og síðan djúsuð, sett í pott með sykrinum. Soðið niður á lágum hita þar til hún er farin að þykkna vel. Í lokin er xanthan gum bætt út í og sultan maukuð.

Djúpsteikur brie

  • 2 stk. brie-ostur – því trúðu mér einn ostur er ekki nóg!
  • 4 msk. fíkjusulta
  • Hveiti
  • Egg
  • Panko-raspur

Brie-osturinn er tekinn og gat skorið í miðjuna á honum, gatið er síðan fyllt með fíkjusultunni. Osturinn er þá frystur í minnsta kosti 3 tíma. Þegar osturinn er frosinn er hann tekinn og panneraður, en best er að fara aðeins öfuga leið á hann til að fá sem stökkasta húð á hann. Byrjað er á smá eggi, síðan hveiti, síðan aftur egg og svo panko. Osturinn er síðan djúpsteikur á 190°C þar til hann er gullinbrúnn, en osturinn þarf helst að vera frosinn þegar hann fer ofan í djúpsteikingarpottinn því annars er séns á að hann leki í gegnum raspinn út í pottinn.

Fíkjusulta

  • 400 gr. fíkjur
  • 250 gr. sykur
  • 150 ml vatn
  • Nokkrir dropar af hvítu balsamik-ediki.

Fíkjurnar eru skornar smátt og settar í pott með sykrinum og vatninu, soðið niður á lágum hita vel og lengi, sultan á að vera vel þykk. Í lokin er edikið sett út í og látið malla með í ca. 2 mínútur. Síðan er sultan maukuð og kæld.

Ananas-salsa

  • 1 stk. ananas
  • ½ stk. rauðlaukur
  • 1 stk. rauður chili
  • 1 dl kóríander
  • 1 stk. lime-zest og safi
  • Salt

Ananasinn er skorinn smátt, þá er hann steiktur á pönnu með örlítilli olíu, en bara rétt aðeins til að ná fram sætunni í honum, hann á ekki að verða brúnn eða svartur að lit. Ananasinn er kældur aðeins niður og á meðan er laukurinn, chili-inn og kóríander skorið mjög smátt. Síðan er öllu blandað saman og smakkað til með lime-zesti, safanum og salti.

Gómsætur ostur sem ekki er annað hægt en að elska.
Gómsætur ostur sem ekki er annað hægt en að elska. Árni Sæberg
Aníta Ösp Ingólfsdóttir, yfirmatreiðslumeistari á RIO Reykjavík.
Aníta Ösp Ingólfsdóttir, yfirmatreiðslumeistari á RIO Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert