Þetta salat lítur ekki bara vel út því það er líka ómótstæðilega gott. Ofnbakaðir tómatar eru hrein dásemd og eru toppurinn á öllu sem þeir koma nálægt. Það má einnig gæða sér á þessu salati með þurrkuðum ávöxtum, grilluðum ferskjum, eplum eða perum – fer í raun eftir því hvað árstíðirnar eru að gefa okkur hverju sinni.
Salat með rucola og bökuðum tómötum
- 125 g rucola
- Handfylli ferskt spínat
- 200 g litlir sætir tómatar
- 1 msk. ólífuolía
- 3 hvítlauksrif, grófsaxað
- Salt og pipar
- ½ dl furuhnetur
Dressing:
- 3 msk. ólífuolía
- 1 msk. eplaedik
- 1 tsk. dijon-sinnep
- 1 tsk. hunang
Aðferð:
- Skerið tómatana til helminga og leggið á bökunarpappír á bökunarplötu.
- Dreifið söxuðum hvítlauknum yfir, hellið ólífuolíu og saltið og piprið. Það má einnig leggja rósmarín eða tímjangreinar á bökunarplötuna fyrir þá sem vilja auka krydd á tómatana.
- Bakið á lágum hita, 100-125° í 1½ til 2 tíma.
- Ristið furuhneturnar á þurri pönnu, þar til þær fara að taka lit.
- Veltið rucola og spínatinu upp úr dressingunni og setjið á fat. Dreifið því næst tómötunum og hnetunum yfir.