Súkkulaðismákökugígar frá Omnom

mbl.is/is

Fyrir rúmu ári síðan bjó súkkulaðigerðarmaðurinn Kjartan Gíslason hjá Omnom til súkkulaði sem var innblásið af litadýrð og fjölbreytileika Hinsegin daga. Súkkulaðið var upprunanlega einungis framleitt í takmörkuðu upplagi með 100 prósent stuðningi við Hinsegin daga en vegna mikilla vinsælda um heim allan er Caramel+Milk komið til að vera. 

Caramel + Milk inniheldur 50% kakóbaunir. Súkkulaðið er með mjúkri áferð og stökkum karamelluperlum sem eru súkkulaðihúðaðar. Ef vel er athugað má finna keim af regnboga í súkkulaðinu og því er þetta hið fullkomna súkkulaði til að taka með sér í gleðigönguna á laugardaginn.

„Við vildum leggja okkar af mörkum fyrir hinsegin samfélagið. Þannig varð þetta súkkulaði til. Við vildum gera súkkulaði sem endurspeglar fjölbreytileikann og litadýrð réttindabaráttunnar og sem er skemmtilegt að deila með öðrum,“ segir Kjartan og tekur fram að Omnom mun halda áfram að styðja Hinsegin daga.

Í tilefni af Hinsegin dögum bjó Kjartan til ómótstæðilega súkkulaði-karamellu gíga sem fullkomið er að deila með vinum og vandamönnum um helgina - eða ekki.

Súkkulaði-karamellu gígar (12. stykki)

Innihald

  • 1 dós niðursoðin mjólk
  • 120 gr. Caramel + Milk frá Omnom
  • 50 gr. smjör
  • 50 gr. sykur
  • 50 gr hveiti
  • 2 egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/4 tsk lyftiduft
  • 1/4 tsk sjávarsalt

Aðferð

Hitið ofninn í 180°c

Karamella

Setjið dósina með niðursoðnu mjólkinni í pott með vatni sem nær alla leið yfir hana og sjóðið í ca. 3-4 klukkustundir. Passið að bæta við vatni eftir þörfum. Látið dósina síðan kólna í ca. 2-4 klukkustundir áður hún er opnuð.

Smákökur

Hitið ofninn í 180°c

Saxið súkkulaðið og bætið því í hitaþolna skál ásamt smjörinu. Setjið skálina yfir pott með sjóðandi vatni og bræðið saman.

Setjið sykur, egg og vanilludropa í skál og þreytið saman. Bætið súkkulaðiblönduinni við og blandið vel saman.

Þá næst er hveiti, lyftiduft og saltið sigtað saman og bætt við blönduna.

Setjið bökunarpappír á plötu og með matskeið setjið eina doppu af súkkulaðideigi (ca 3-4 cm á breidd).

Passið að hafa 4 cm pláss á milli hverrar köku. Bleytið teskeið og ýtið í miðjuna til að búa til lítinn gíg.

Setjið eina teskeið af karamellu ofan í gíginn og bakið í átta til 12 mínútur. Stráið sjávarsalti yfir og leyfið að kólna í minnst 10 mínútur.

Njótið vel!

mbl.is/
mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert