Eyjamenn sækja í gottið

Klara Óskarsdóttir er allt í öllu á GOTT í Reykjavík.
Klara Óskarsdóttir er allt í öllu á GOTT í Reykjavík. Ásdís Ásgeirsdóttir

Ég er búin að vera í þessum bransa síðan pabbi var með Argentínu steikhús, ég fæddist eiginlega þar,“ segir Klara Óskarsdóttir og hlær. Hún er dóttir matreiðslumeistarans Óskars Finnssonar og er nú veitingastjóri og meðeigandi á Gott í Reykjavík. Hún segist vera í vinnunni frá morgni til kvölds og vill hvergi annars staðar vera.

Þetta er mín ástríða

„Við fluttum til Bretlands þegar ég var tólf ára og ég er bara nýkomin heim en ég vann í veitingageiranum í London í mörg ár,“ segir hún. „Í London var ég aðstoðarveitingastjóri á nokkrum stöðum. Ég er ekki í eldhúsinu en þetta er mín ástríða. Pabbi og Siggi í Gott (Sigurður Gíslason) hafa þekkst lengi og við erum bara eins og ein stór fjölskylda,“ segir Klara, en staðurinn í Reykjavík er útibú, ef svo má segja, af veitingastaðnum Gott í Vestmannaeyjum.

Eyjamenn duglegir að koma

Gott í Reykjavík opnaði 1. mars á þessu ári og er í sama húsi og Konsulat hótel í Hafnarstræti. Klara segir staðinn hafa gengið vel alveg frá opnun, en viðskiptavinir eru bæði Íslendingar og útlendingar. Eyjamenn eru sérstaklega duglegir að koma.

„Það var ótrúlegt að þegar við opnuðum voru um 80% gestanna Eyjamenn. Það þekktust allir! Gamlir Eyjamenn koma gjarnan og líka þeir sem búa í Eyjum og eru í fríi í Reykjavík,“ segir Klara.

Jákvæðni og bros

Klara segir staðinn sniðinn að hinum sem er í Eyjum, enda óþarfi að breyta því sem gott er.

„Þetta er sama koncept og sami matseðill, en staðurinn er allt öðruvísi innréttaður. Margir koma aftur og aftur því fólki líður vel af þessum mat því hann er svo ferskur og góður. Truffluborgarinn er mjög vinsæll,“ segir Klara og blaðamaður getur vottað að þessi borgari er einn sá besti í bænum.

Síðan Klara byrjaði að vinna á veitingastöðum hefur faðir hennar gefið henni mörg góð ráð.

„Kannski er besta ráðið sem hann hefur gefið mér er að vera jákvæð og brosa. Og það hefur hjálpað mér ótrúlega mikið.“

Ásdís Ásgeirsdóttir
Ásdís Ásgeirsdóttir
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert