Ómótstæðilegt pastasalat með serrano og mozzarella

Salat gerist ekki mikið girnilegra en þetta.
Salat gerist ekki mikið girnilegra en þetta. mbl.is/SpiseBedre

Það er svo dásamlegt að borða mat sem „lúkkar“ líka vel. Pasta getur verið frekar einsleitt en hér fær það félagsskap jarðarberja, serrano-skinku, mozzarella og balsamikediks. Það klikkar ekkert með þetta á matarborðinu.

Ómótstæðilegt pastasalat (fyrir 4)

  • 400 g pastaslaufur
  • 150 g serrano-skinka
  • 2 msk. ólífuolía
  • 300 g jarðarber
  • 50 g rucola
  • 250 g litlar mozzarellakúlur
  • 1 lítill rauðlaukur
  • Fersk basilika
  • Salt og pipar
  • 2 dl balsamikedik

Aðferð:

  1. Sjóðið balsamikedikið í litlum potti þar til helmingurinn af vökvanum hefur gufað upp. Hellið því næst í krukku eða skál og geymið í ísskáp.
  2. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum, hellið vatninu af og skolið undir köldu vatni.
  3. Hitið ofninn í 175° og bakið serrano-skinkuna á bökunarpappír á plötu í 5 mínútur, þar til skinkan verður stökk.
  4. Veltið pastanu upp úr olíu í skál. Skolið jarðarberin og skerið þau í skífur. Skolið og þurrkið rucola-salatið. Blandið jarðarberjum, rucola og mozzarellakúlunum saman við pastað.
  5. Skerið rauðlauk í þunnar skífur og blandið við salatið ásamt basiliku, salti og pipar.
  6. Setjið salatið á fat og brjótið skinkuna yfir í litla bita. Hellið því næst balsamikediki yfir og berið fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert