Lilja Katrín Gunnarsdóttir er einn afkastamesti og skemmtilegasti bakari þessa lands. Hún fagnar þessa dagana útkomu bókarinnar Minn sykursæti lífsstíll sem er sneisafull af dásamlegum sykurbombum og öðru góðgæti sem er svo girnilegt að það er allt eins líklegt að einhverjar blaðsíður í bókinni verði étnar upp til agna...svo girnilegar eru þær. Á þessum síðustu og verstu tímum sykurfordæmingar er nauðsynlegt að einhver haldi uppi vörnum fyrir sætindi og ef þessi bók er ekki nóg til að gleðja hjartað þá veit ég ekki hvað.
Lilja segir að bókin sé eitt risa gæluverkefni og hún hafi lagt allt í sölurnar til að láta drauminn rætast. „Síðan ég man eftir mér hefur mig dreymt um að vera rithöfundur og þó að þessi bók sé auðvitað ekki gasalega spennandi skáldsaga með rómantísku ívafi og drungalegum undirtón sem ég hafði hugsað mér, þá er þetta nú samt sem áður bók sem ég er mjög stolt af og er fáránlega ánægð að hafa búið til.“
„Svo er það barasta mín skoðun að það vanti meiri bakstur í heiminn fyrir sætindaperrana og kolvetnaklikkhausana – eins og mig. Bakstur kætir, bætir og hressir, en ég held að fólk forðist það oft eins og heitan eldinn út af því að það er sífellt verið að tala um að bakstur sé svo mikil vísindi og þurfi að mæla allt í öreindir og þar fram eftir götunum. Fyrir mér er bakstur fyrst og fremst dásamleg leið til að fá útrás fyrir sköpunargleðina og skemmta mér. Og hvað um það þó að eitthvað klúðrist? Baksturslögreglan hefur í nægu að snúast að eltast við krimma sem strá chia-fræjum og hörflögum yfir allt þannig að þú þarft engar áhyggjur að hafa. Og af minni reynslu þá er bakstur nánast aldrei óætur þótt hann líti ekki út eins og maður reiknaði með – svona ef það er einhver huggun. Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera með smá smjörkremi...“
„Bókin er ætluð öllum þeim sem vilja fá smá útrás í eldhúsinu. Öllum sem elska sykur og hveiti, svo ég tala nú ekki um smjör og rjóma. Öllum sem eru óhræddir við að prófa sig áfram og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Öllum sem þrá lit, líf, gleði, kolvetnavímu og sykursjokk í líf sitt. Ég myndi segja að uppskriftirnar væru í léttari kantinum, þó að það poppi ein og ein uppskrift upp sem þarfnast smá extra umhyggju og tíma. Ég hef hins vegar, síðan ég opnaði blaka.is, reynt að einblína á að uppskriftir séu einfaldar og fyrir alla, þannig að ég ákvað að hafa einn kafla í bókinni undir gúmmulaði sem þarf bara alls ekkert að baka. Þannig er bókin bæði fyrir þá sem hræðast bakaraofninn og sem elska hann. Ég geri þetta líka svo börn á öllum aldri geti tekið þátt í bakstrinum, en að fenginni reynslu hafa börn ofboðslega gaman af því og búa að leyndardómum eldhússins alla ævi.“
„Ég mæli ekkert sérstaklega með því að fólk baki allt upp úr bókinni í einum rykk og gúffi því síðan öllu í sig á nokkrum klukkutímum. Það gæti þýtt heimsókn á spítala og jafnvel þróun á einhvers konar lífsstílstengdum sjúkdómum. Allt er gott í hófi, og þótt það sé ofboðslega gaman að baka alla daga er það visst hættumerki þegar það er snúður í morgunmat, bollakaka í hádeginu og marengs í kvöldmat. Nei, ég hef sko aldrei bryddað upp á þessum matseðli heima hjá mér! Ég bara segi svona...“
Aðspurð hver uppáhaldsuppskrift hennar sé verður fátt um svör enda fáránlega flókin spurning. „Þetta er ein af þessum ómögulegu spurningum eins og: Hvort elskar þú meira – maka eða börn? eða Hvort ætti ég að hafa súkkulaði- eða karamellukrem á svampbotninum? En ef einhver myndi hóta því að taka handþeytarann og hveitið af mér ef ég myndi ekki svara þessari spurningu þá yrði ég að segja heimagerða Twix-ið. Það ætti í raun að vera ólöglegt. Ég er með heilan kafla í bókinni þar sem ég heimageri heimsfrægt nammi og sá kafli einn og sér sá til þess að ég þyngdist um sirka fimm kíló, plús mínus 7 kíló.“
Lilja segir að bókin fari í sölu innan skamms og hægt verði að fá hana í versluninni Kjólar & konfekt í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún verði einmitt með útgáfuteiti 6. september og séu allir velkomnir. Eins sé hægt að hafa samband við hana í Facebook eða í gegnum matarbloggið hennar blaka.is. „Bókin var prentuð í afar takmörkuðu upplagi þannig að ég á ekki endalausan lager. Þannig að ef þið, kæru lesendur Morgunblaðsins, lesið þetta viðtal við mig og froðufellið af spenningi þá mæli ég með því að hafa samband við mig fyrr en síðar.“