Ketó-þorskhnakki með kúrbítssneiðum og pestói

Hér gefur að líta uppskrift sem er þeim óvanalega kosti gædd að tikka í öll box. Hún er bragðgóð og einföld, elskuð af börnum og það sem meira er ... skilgreinist sem ketó þannig að foreldrar í heilsufíling geta áhyggjulausir gúffað hann í sig. 

Það er enginn annar en Gunnar Már Sigfússon sem á heiðurinn af uppskriftinni. 

Þorskhnakki með kúrbítssneiðum og pestó

Við getum bara gleymt þeirri hugmynd að velta matvælum upp úr hveiti áður en við matreiðum þau en eggið og þessi geggjaða ólífuolía OLIFA sem ég nota á þorskinn og svili minn Emil Hallfreðsson er að flytja inn eru „nýja hveitið“ og margfalt hollari kostur og bragðið ... maður lifandi.

  • Uppskrift fyrir 2
  • Eldunartími: 15 mín.

Hráefni

  • 400 g þorskhnakkar
  • 1 egg
  • salt og svartur grófur pipar
  • OLIFA-ólífuolía
  • 2 kúrbítar
  • 4 msk pestó (tilbúið)
  • 1 HASS-avókadó (lítið)
  • gróft sjávarsalt

Það sem þú þarft að hafa við höndina er steikarpanna, bretti, hnífur og ostaskeri

Stilltu ofninn á 180° og yfirhita

Aðferð

1. Brjóttu eggið og þeyttu það í skál. Skerðu þorskinn í jafna hluta og veltu þeim upp úr egginu og steiktu á pönnu í olíu og kryddaðu með salti og pipar. Settu inn í ofn í 10 mínútur.

2. Skerðu endana af kúrbítnum og skerðu hann svo í sneiðar með ostaskeranum. Steiktu hann á pönnu í olíu í 2-3 mínútur eða þar til hann er farinn að mýkjast og kryddaðu með klípu af salti.

3. Skerðu avókadó í litla bita.

4. Pestóið er keypt tilbúið enda flest pestó í góðu lagi. Jamie's er einstaklega gott og notar ólífuolíu með kryddjurtunum. Bættu því saman við avókadóið og síðan kúrbítinn og færðu upp á tvo diska.

5. Settu þorskinn á diskinn ásamt klípu af salti og settu svo góða slettu af OLIFA-ólífuolíu yfir bæði þorskinn og kúrbítinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert