Krúttlegir marengspinnar

Marengs á pinna er frábær hugmynd í næsta afmæli.
Marengs á pinna er frábær hugmynd í næsta afmæli. mbl.is/Coop

Það er hægt að gera næstum allt með marengs. Til dæmis setja marengs á trépinna og bera fram eins og íspinna – eitthvað sem mun gleðja alla, konur og karla.

Marengs pinnar (fyrir 6)

  • 160 g eggjahvítur
  • 180 g sykur
  • 80 g flórsykur
  • 1 msk. vanillusykur
  • Matarlitir
  • Trépinnar
  • Sprautupoki og stútur að eigin vali

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 120° á blæstri og leggið bökunarpappír á bökunarplötu.
  2. Þeytið eggjahvíturnar í skál þar til þær eru næstum orðnar stífar. Bætið þá sykri rólega út í og haldið áfram að þeyta á lágri stillingu. Því næst kemur helmingurinn af flórsykrinum og vanillusykurinn. Restinni af flórsykrinum er blandað út í deigið með sleif.
  3. Ef þú vilt lita marengsinn setur þú nokkra dropa út í deigið af þeim lit sem þú kýst og hrærir þar til liturinn hefur blandast vel saman við deigið.
  4. Raðið trépinnum á bökunarpappírinn og sprautið marengsinum yfir í skemmtileg munstur. Setjið plötuna í ofninn og lækkið hitann í 80° – bakið marengspinnana í 1 tíma.
  5. Slökkvið á ofninum og leyfið marengspinnunum alveg að kólna í lokuðum ofni. Það má geyma marengsinn í lofttæmdum umbúðum ef það á ekki að njóta hans strax.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert