Geta skór hlaupið í þurrkara?

Þetta er hvorki grín-spurning né brandari. Hér er um að ræða háalvarlegt mál sem undirrituð lenti í á dögunum og við nánari eftirgrennslan kom í ljós að ég er ekki ein um að glíma við það.

Forsaga málsins er sú að í göngutúr á dögunum lenti ég í úrhellisrigningu ásamt dóttur minni. Þegar inn í hús var komið voru góð ráð dýr þar sem við vorum gestkomandi hjá vinum okkar. Ég brá því á það ráð að henda öllum fötunum okkar inn í þurrkara og fékk lánuð einhver kósíföt á meðan.

Löngu síðar þegar halda átti heim fór ég og náði í fatnaðinn og skóna. Fötin voru þurr og fín en ég var ekki frá því að skórnir mínir væru töluvert þrengri en þeir höfðu áður verið. Ég klóraði mér (eðlilega) í kollinum og trúði þessu vart. Nú er ég búin að ganga skóna til í nokkra daga og þeir eru enn þrengri en þeir voru.

Ákvað ég þá að gúggla vandamálið og komst að tvennu:

  • Það er gríðarlega algengt að fólk gúggli þetta vandamál sem rennir stoðum undir kenningu mína um að skór geti í reynd hlaupið í þurrkara.
  • Skóframleiðendur mæla ekki með að skór séu settir í þurrkara sem rennir einnig stoðum undir þessa skoðun mína.

Mitt ráð er að minnsta kosti að setja skó ekki í þurrkara... þó að það sé ekki vísindalega sannað þá er aldrei að vita hvað getur gerst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert