Svona sýður þú hinn fullkomna grjónagraut

Hinn fullkomni grautur.
Hinn fullkomni grautur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er ekki öllum gefið að sjóða grjónagraut og er undirrituð sannarlega ein þeirra sem á í mesta basli við það. Þessi uppskrift kemur frá tengdamóður minni, Höllu Loftsdóttur, sem er afskaplega lipur í eldhúsinu svo ekki sé fastar að orði kveðið en grauturinn kallast biskupsgrautur enda kemur uppskriftin upphaflega frá Jóni Aðalsteini Baldvinssyni fyrrverandi Hólabiskupi. 

Biskupsgrautur frú Höllu

  • 2,5 dl grautargrjón
  • vatn
  • smjörklípa
  • 1 lítri mjólk

Aðferð:

  1. Byrjið á að setja grjónin, smjörklípuna og vatnið í pott og látið suðuna koma upp. (Nóg er að setja vatn í pottinn þar til það hylur grjónin.)
  2. Lækkið þá undir pottinum og setjið lítra af mjólk út í pottinn. 
  3. Látið malla óáreitt á eldavélinni í rúmar 20 mínútur. Þá má athuga með grautinn, en ekki fyrr. Oft þarf að bæta örlítilli mjólk út í og sjóða ögn lengur en þessi grautur er algjör snilld og það þarf mikinn meistara til að klúðra suðu hans. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert