Jólamánuður ársins er genginn í garð og þá leyfum við okkur allt. Purusteik er vinsæl á flestum heimilum landsins og þá oftar en ekki með rauðkáli og brúnuðum kartöflum. Hér er öðruvísi hugmynd að meðlæti með grænkáli, geitaosti og peru, sem gefur þessari ágætu steik frísklegt bragð.
Purusteik með spennandi meðlæti (fyrir 4)
- 600-800 g purusteik
- Salt
- 200 g grænkál
- 2-4 rúgbrauðssneiðar
- 1 pera
- 120 g geitaostur
- 1 msk. eplaedik
- 2 msk. ólífuolía
- Salt og pipar
Aðferð:
- Stráið salti á milli rifanna á purusteikinni, en skerið í fituna ef það er ekki þegar gert og stráið salti.
- Setjið kjötið á rist með plötu undir eða í eldfast mót með rist. Hellið ½ l af vatni í skúffuna undir ristinni og eldið við 220-230° í 15-20 mínútur, þar til kjötið hefur tekið lit. Haldið þá áfram að steikja kjötið í ofni við 180° í 1 klukkustund, þar til kjöthitinn hefur náð um 68°.
- Leyfið steikinni að hvíla í 10 mínútur áður en hún er skorin.
Grænkálssalat:
- Rífið blöðin niður af grænkálinu í litla bita og skolið í köldu vatni. Hellið þeim í sigti og leyfið vatninu að leka af.
- Ristið rúgbrauðið í ristavél eða í ofni á grilli, og brjótið í litla bita.
- Skerið peruna til helminga og skerið í þunnar sneiðar. Skerið ostinn líka í litla bita.
- Veltið grænkálinu upp úr eplaediki, síðan ólífuolíu, salti og pipar og því næst kemur rúgbrauðið út í, peran og osturinn.
- Berið purusteikina fram með grænkálssalati og jafnvel kartöflum.