Veganúar stendur nú sem hæst og í tilefni þess deilum við uppskrift úr bókinni Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar: vegan uppskriftir fyrir mannúðleg matargöt sem sló í gegn fyrir jólin enda fyrsta bók sinnar tegundar sem gefin er út af íslenskum höfundi.
„Enginn matur í heiminum hlýjar og huggar eins og gott, safaríkt lasanja. Þarna er ítalskt hugvit upp á sitt besta, lasanja hentar öllum tilefnum og árstíðum og er alltaf best daginn eftir,“ segir Guðrún Sóley um þessa uppskrift sem er í miklu uppáhaldi hjá henni.
„Að mínu mati á lasanja að vera mikil bragðveisla þar sem hvert lag færir þér eitthvað nýtt og spennandi. Þessa uppskrift tók mörg ár að stilla til og betrumbæta en ég get með sannfæringu sagt að hér sé á ferðinni gómsætt og einfalt lasanja við allra hæfi.“
Hið eina sanna vegan lasanja
Aðferð:
Hitið ofninn í 190°C. Hitið ólífuolíu á pönnu við meðalháan hita og brúnið hvítlaukinn. Bætið niðursneiddum sveppum út á og steikið í nokkrar mínútur þar til sveppirnir mýkjast. Bætið tamarisósu út á sveppina og veltið þeim vel upp úr sósu og hvítlauk þar til þeir eru mjúkir í gegn. Komið sveppum fyrir í skál og leggið til hliðar. Hitið aftur ólífuolíu á pönnu og steikið brokkolí, kúrbít og baunir. Bætið tómötum saman við. Kryddið með cayennepipar og hvítlaukskryddi. Saltið og piprið duglega, blandið og steikið.
Útbúið bechamel-sósuna á meðan.
Þegar grænmetið er byrjað að brúnast lítið eitt er pannan tekin af hellunni og hafist handa við samsetningu. Þekið botninn á eldföstu móti með grænmetisblöndunni, hyljið hana með góðum skammti af spínati, komið góðum skammti af sveppum fyrir þar ofan á og skammtið doppur af rjómaosti eftir smekk. Hrúgið góðu magni af næringargeri ofan á. Setjið lasanjaplötur þar ofan á og hellið bechamel-sósu ofan á plöturnar þar til hún rétt svo hylur þær. Þar ofan á koma svo næstu lög: Grænmeti, spínat, sveppir, rjómaostur, næringarger, plötur, bechamel-sósa og svo koll af kolli þar til formið er vel fullt. Stráið þá góðu magni af vegan osti ofan á og kryddið vel með næringargeri. Bakið í ofni í um 35 mínútur. Takið út, leyfið að kólna örlítið og skreytið með saxaðri basilíku.
Bechamel-sósa
í vegan útgáfu:
Aðferð:
Hitið ólífuolíu í litlum potti við meðalhita. Bætið smátt og smátt hveiti út í olíuna og hrærið kröftuglega. Haldið áfram að hræra og gætið þess að blandan brenni ekki, ef allt stefnir í það lækkið þá hitann lítið eitt. Bætið síðan jurtamjólkinni út í, haldið áfram að hræra og leyfið sósunni að þykkna smátt og smátt, það gerist yfirleitt þegar hún hefur soðin í nokkrar mínútur. Blandið dijonsinnepinu út í. Þegar réttri þykkt er náð, takið þá pottinn af hellunni og hrærið múskati, salti og pipar saman við.