Við fáum ekki nóg af góðum ráðum um hvar og hvernig megi taka betur til hendinni heima fyrir. Það eru fleiri í sömu sporunum því í Ástralíu er hópur sem kallast „Mums who Clean“, og þar eru félagar með allt á tandurhreinu.
Okkur, sem töldum okkur vera með þrif á uppþvottavélinni alveg upp á tíu, hefur yfirsést eitt mjög mikilvægt atriði. Það er gúmmílisti inni í vélinni sem geymir skítugt leyndarmál, en hann spornar við því að vatnið leki niður á gólf. Þessi listi er haugaskítugur!
Ef við þrífum ekki þennan lista reglulega er hætta á að vélin fari að lykta, fyrir utan hvaða bakteríur grassera þar á meðan. Mælt er með því að þrífa þennan lista á tveggja vikna fresti því þörfin er eftir því. Gott er að nota gamlan tannbursta í verkið og fyrst við erum að þessu á annað borð er upplagt að taka síuna sem liggur í botni vélarinnar í leiðinni.