Það besta við húsráð sem þessi er að oftar en ekki lumum við á snilldarhreinsiefnum uppi í skáp án þess að vita af því. Flestar raksápur innihalda efni sem svipar til venjulegra hreinsiefna og því tilvalin að nota til þrifa.
Blettahreinsir
Spreyjaðu raksápu á blettinn á teppinu eða sófanum og leyfðu henni að þorna. Þurrkaðu svo eða ryksugaðu kremið eftir að það hefur þornað. Þetta er líka upplagt að nota á bletti í bílsætum.
Komdu í veg fyrir móðu
Viltu losna við móðuna sem myndast á speglum eftir sturtu? Makaðu þunnu lagi af raksápu á spegilinn, þurrkaðu af, og málið er leyst. Stórfínt ráð til að nota einnig á sturtugler, glugga og gleraugu.
Burstað stál
Raksápan er frábær til að þrífa burstað stál og fer mun betur með yfirborðið en önnur harðari efni.
Fáðu króm til að glansa
Þú mátt nota raksápuna á krómaða hluti. Spreyjaðu sápunni í mjúkan klút og strjúktu yfir krómið, fullkomið fyrir kalkbletti sem myndast á blöndunartækjum inni á baði.
Snöggþrif á ofni
Til að þrífa ofninn upp á tíu þarf sterkari hreinsiefni en raksápu – en hún er samt tilvalin í snöggþrif þegar lítill tími er fyrir hendi.
Skartgripir
Raksápan er áhrifamikil þó að hún sé ekki með sterkustu innihaldsefnin. Prófaðu sápuna næst þegar þú vilt fá skartið þitt til að „shæna“ á ný. Nuddaðu skartgripunum upp úr raksápu og skolaðu svo.
Hreinar hendur
Næst þegar þú stendur uppi með málningu eða annað efni á höndunum sem erfitt er að þvo af, skaltu prófa raksápuna. Hún er líka frábær til að losa naglalakk af höndunum sem á það til að „sullast“ á sjálfa fingurna.
Olíublettir
Olíublettum á skóm og töskum er einfalt að ná af með raksápu. Nuddið sápunni á blettinn og þurrkið af með rökum og hreinum klút. Svo einfalt en gott að vita.