Staðirnir sem ryksugan nær ekki til

Það er af nógu að taka þegar kemur að heimilisþrifum.
Það er af nógu að taka þegar kemur að heimilisþrifum. mbl.is/Lana Kenney

Til eru þeir staðir í þessari veröld sem hin alheilaga ryksuga nær ekki til. Þetta eru sláandi fréttir og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og ómannúðlega leit að hinum fullkomna aukastút framan á ryksuguna þá eru þetta engu að síður staðirnir sem við játum okkur sigruð gagnvart.

Undir græjunum
Við erum ekki mikið að færa heimilis-græjur á við ísskápa og eldavélar úr stað. Það er ótrúlegt hvað getur safnast mikið ryk og annar óþrifnaður þarna undir sem ryksugan nær ekki til. Eins undir sófasettinu og ekki má gleyma öllum þeim búnaði sem fylgir okkur í kringum sjónvarpið – afruglara, leikjatölvur, magnara o.s.frv. Hvenær lyftir þú seinast DVD-spilaranum og þurrkaðir vel úr hillunni þar undir?

Saumarnir
Það eru allir litlu staðirnir sem við hlaupum oftast fram hjá þar til við erum farin að sjá skítinn það augljóslega að við ráðumst til aðgerða. Hér erum við að tala um staði þar sem t.d. gólfið mætir listanum í eldhúsinu. Við rennum yfir með ryksuguna og teljum okkur trú um að allt hafi farið með á meðan mylsnur troða sér bara á milli „saumanna“ og láta fara vel um sig.

Gólflistar, veggir og hurðir
Fyrst þú ert á annað borð að moppa yfir gólfið er upplagt að moppa yfir veggi og hurðir. Prófaðu að skoða veggina heima hjá þér því það mun koma verulega á óvart hversu mikið ryk liggur á þeim. Við mælum einnig með að þurrka yfir gólflistana því þar liggur heimilisskítur sem engan grunaði – þú munt sjá stórfelldan mun eftir slík þrif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert