Svona heldur þú rúminu hreinu

Hvernig heldur þú rúminu þínu hreinu?
Hvernig heldur þú rúminu þínu hreinu? mbl.is/Gettty Images

Þegar klukkan slær í háttatíma er ekkert betra en að skríða upp í hreint rúm og sofa vel út nóttina. En hvernig er best að halda rúminu hreinu? Hér koma nokkur atriði sem fylgja má eftir í góðan nætursvefn.

Þvoið sæng og kodda
Góð regla er að þvo sængina og koddann tvisvar á ári og setja í þurrkara á eftir ásamt tveimur tennisboltum sem hjálpa fyllingunni að laga sig á ný. Sængin og koddinn þurfa að vera orðin alveg þurr áður en þú setur hrein sængurver aftur á.

Skiptið um sængurver
Það fer algjörlega eftir því hvernig „ástandi“ þú ert í er þú leggst upp í rúm. Ertu að koma beint úr ræktinni með kaldan svita eða ferðu í sturtu á hverjum degi? Það ætti að vera nóg að skipta um sængurver á hálfs mánaðar fresti en þú gætir þurft að gera það vikulega ef raunin er sú.

Ryksugið dýnuna
Dýnan er uppfull af ryki og því mjög gott að ryksuga hana öðru hverju. Ef það eru blettir í dýnunni má reyna að strjúka þá úr með eins litlu vatni og mögulegt er þar sem dýnan sýgur allan raka í sig og það viljum við ekki.

Slepptu rúmteppinu
Raki er versti óvinur dýnunnar! Slepptu því að setja rúmteppi yfir sængurnar á morgnana og slepptu því helst að búa um rúmið. Leyfðu dýnunni að anda í stað þess að kafna í raka og ryki.

Notaðu yfirdýnu
Það er frábært að nota yfirdýnu sem þú getur tekið reglulega af og þvegið. Við mælum með að þvo yfirdýnuna sex sinnum á ári. Yfirdýna ver líka stóru dýnuna og lengir líftíma hennar.

Skiptu um dýnu
Þumalputtareglan er að skipta um dýnu á 10 ára fresti. Ímyndaðu þér svitann og rakann sem hefur safnast saman í gegnum árin í dýnuna. Gömul og slitin dýna er heldur ekki góð fyrir líkamann sem við þurfum að passa vel upp á og vera úthvíld á morgnana.

mbl.is/Thinkstockphotos
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert