„Þessi uppskrift hefur verið leyniuppskriftin mín um árabil. Ef ég vil slá um með djúsí og virkilega góðum mat sem enginn leifir en hef ekki mikinn tíma er þessi réttur málið. Stundum geri ég tvöfaldan skammt og frysti ef ég sé fram á annasama viku. Þetta er líklega eitt besta kjúklinga-lasagna sem ég hef bragðað á,“ segir Tobba Marínós um þessa uppskrift sem slær alltaf í gegn.
Ferskt salat, guacamole eða sýrður rjómi með og kvöldið er fullkomnað.
Leyni-lasagna uppskrift Tobbu Marínós
- 1 eldaður kjúklingur, rifinn, eða 3 bringur, steiktar og rifnar niður
- 6 heilhveiti tortillur
- 1 laukur
- 1/2 geiralaus hvítlaukur
- 1/2 knippi saxað kóríander
- 200 g kotasæla
- 150 g rjómaostur
- 100 g maísbaunir, má sleppa (ég kaupi frosnar í Nettó, mjög sætar og góðar.)
- 1 stór krukka salsasósa, medium
- 1 poki rifinn ostur
- olía
- Cajun bbq-krydd eða kjúklingakrydd á kjúklinginn
- Chillíflögur í kvörn eða ferskt chillí smátt saxað
- Sjávarsalt
Aðferð:
- Steikið laukinn og hvítlaukinn þar til laukurinn fer að mýkjast.
- Bætið þá rjómaostinum og kotasælunni við og slökkvið undir.
- Hærið saman uns rjómaosturinn hefur bráðnað og blandan er orðin nokkuð jöfn.
- Bætið þá elduðum kjúklingnum við og kóríander ásamt 1/4 tsk. af sjávarsalti og 1/3 tsk. af möluðum chillíflögum eða eftir smekk. Það má vel krydda meira. T.d. með Cajun bbq frá Pottagöldrum. Að lokum fara maísbaunirnar út í. Ef notaðar eru frosnar eru þær þíddar fyrst.
- Penslið eldfast mót með olíu svo kökurnar festist ekki við.
- Leggið kökur í botninn og hellið kóríanderhelmingnum af kjúklingafyllingunni yfir.
- Það má líka rúlla þeim upp ef það hentar betur.
Því næst fara tortillakökur aftur ofan á og restin af kjúklingafyllingunni.
- Svo fara tortillakökur í þriðja skiptið og svo fer salsasósan yfir og rifnum osti hellt yfir.
- Bakað í miðjum ofni á 180 gráður í 20 - 30 mínútur eða þar til rétturinn er orðinn vel heitur í gegn og osturinn tekinn að gyllast.