Þessi borgari og þetta meðlæti er það sem við myndum flokka sem stórkostleg blanda. Svo góð að við spörum ekki lýsingarorðin og hvetjum ykkur eindregið til að smakka þessa dásemd.
Grísaborgari með perum gráðaosti og sætum kartöflum
Fyrir fjóra:
- 500 gr grísahakk
- 60 gr gráðaostur
- 100 gr klettasalat
- 1/2 pera, skorin langsöm í þunnar sneiðar
- 1/2 rauðlaukur
- 1 msk ólífuolía
- 1 msk rauðvíns edik
- 4 hamborgarabrauð
- 1 poki sætkartöflu franskar
- Salt og pipar
Aðferð:
- Mótið fjóra borgara úr grísahakkinu. Hitið olíu í meðalhita á pönnu og brúnið borgarana vel á báðum hliðum. Saltið og piprið eftir smekk.
- Þegar borgarinn er orðinn vel brúnaður á seinni hliðinni, snúið honum aftur við, setjið gráðaost ofan á hann og eldið áfram þar til osturinn er orðinn bráðinn og borgarinn vel eldaður í gegn. Ath að grísahakk þarf að elda í gegn.
- Setjið klettasalatið, rauðlaukinn og peruna í skál. Hellið rauðvínsedikinu og ólífuolíunni yfir. Blandið saman.
- Ristið hamborgarabrauðin og smyrjið að innan með mayonesi. Setjið borgarann á og salatið yfir.
- Berið fram með sætkartöflu frönskum og hvítlaukssóu.