Við getum alltaf á okkur bollum bætt. Þessar ylvolgu bollur eru alveg ómissandi á morgunverðarborðið, og það besta er að þú hnoðar deigið deginum áður en þú bakar. Uppskriftin inniheldur sirka 15 bollur sem bakaðar eru í hring með fersku oreganó kryddi.
Brauðbolluhringur með oreganó
- 15 g ger
- 3,5 dl vatn
- 2 msk. ólífuolía
- 1 tsk. sykur
- 1,5 tsk. salt
- 50 g heilhveiti
- 450 g hveiti
- Handfylli ferskt oreganó
Aðferð:
- Sáldrið gerinu í vatnið og hrærið saman þar til gerið leysist upp. Bætið við olíu, sykri, salti og heilhveitinu. Bætið við hveitinu smátt og smátt.
- Hnoðið vel í matvinnsluvél í 5 mínútur, þar til deigið leysir sig frá hliðunum. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið deigið hefast yfir nótt inn í ísskáp.
- Stráið hveiti á borðið og hnoðið örlítið upp úr deiginu og formið í sirka 15 bollur.
- Setjið bollurnar í smelluform, 25 cm, klætt með bökunarpappír. Leggið rakt viskastykki yfir bollurnar og látið hefast í forminu í 1 tíma.
- Hitið ofninn á 200°C. Penslið bollurnar með olíu og stráið oreganó yfir.
- Bakið bollurnar í ofni í um 20 mínútur eða þar til gylltar og bakaðar í gegn.
- Látið bollurnar kólna á rist og berið fram volgar með smjöri eða góðri ólífuolíu.