Svona gerir þú kökupinna eins og atvinnumaður

Kökupinnar eru mögulega það lekkerasta sem hægt er að bjóða upp á í fínni samkundum. En það er ekki á allra færi að gera þá eða hvað? Í þessum þætti af Bakað með Betty sýnir Berglind Hreiðarsdóttir okkur hvernig á að gera kökupinna eins og atvinnumaður án þess að falla í yfirlið eða klúðra málunum. 

Hér getið þið séð ferlið með nánari útskýrinum og einnig hef ég sett inn myndir til að styðjast við – gangi ykkur vel!

1. Bakið köku

Hægt að nota hvaða Betty Crocker kökumix sem þið viljið. 

2. Útbúið krem

Best er að nota 1/2 - 2/3 dós af Betty Crocker Vanilla frosting kreminu. 

3. Myljið kökuna og blandið kreminu saman við

Hér er gott að byrja að blanda saman með sleif og síðan hnoða létt með höndunum, gott að hafa einnota hanska því þá klístrast blandan síður við lófana. Hér er mikilvægt að setja hvorki of mikið né of lítið af kremi. Þumalputtareglan er sú að nota um 700gr af köku og 60gr af kremi. Sumar kökur eru þurrar, aðrar blautar svo best er að setja kremið varlega útí því alltaf er hægt að bæta við en erfiðara er að bjarga málunum ef of mikið krem er komið í blönduna.

4. Mótið kúlur

Prófið að taka hluta af blöndunni og rúlla í lófunum. Kúlurnar ættu að vera nokkuð mjúkar en þó halda lögun. Best er að finna skeið/skammtara því þannig verða kúlurnar allar svipaðar af stærð (mér þykir mjög gott að miða við rétt rúmlega matskeið/tbsp).Ef kúlan vill losna í sundur vantar aðeins meira krem, ef kúlan er mjög lin og tapar auðveldlega lögun gætuð þið hafa sett of mikið krem. Þessu er bjargað með því að bæta við kremi eða köku eftir þörfum.

5. Kælið

Plastið kúlurnar vel og geymið í kæli í 3-5 klst (allt í lagi að geyma yfir nótt). Einnig er hægt að geyma kúlurnar í frysti (ef það er gert þarf að þýða þær við stofuhita og kæla svo uppá nýtt í lágmark 3 klst).

6. Bræðið hjúpinn

Hægt er að dýfa kúlunum í mismunandi hjúp. Notast má við hjúpsúkkulaði, hefðbundið súkkulaði, Candy Melts o.fl. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni (sett á meðalhita í 30 sek í senn og hrært á milli). Ef hjúpurinn er of þykkur má þynna hann með olíu/feiti (notið bragðdaufa matarolíu, palmín feiti, kókosolíu, Crisco o.fl). Setjið þó um 1 tsk af feiti útí í einu og hrærið á milli. Varist að ofhita súkkulaðið. Hjúpurinn þarf að vera djúpri og þröngri skál til að hægt sé að dýfa kúlunni ofaní allri í einu án þess að hún snerti botninn.

7. Dýfið og skreytið

Hafið kökupinnaprik og kökuskraut við hendina ef notast á við slíkt. Takið aðeins örfáar kúlur útúr ísskápnum í einu því best er að hafa þær kaldar og stífar (alls ekki frosnar samt). Stingið prikinu rúman cm í hjúpinn og því næst í miðja kúluna en alls ekki lengra en hálfa leið því þá gæti það endað með því að kúlan „fari í gegn“ um prikið. Dýfið kúlunni strax í hjúpinn svo hann þekji hana alla og fari örlítið inná prikið. Þetta er gert til þess að „pakka henni“ algjörlega inn og hleypa engu lofti að því þá geta myndast sprungur. Þegar búið er að dýfa allri kúlunni skal hún strax tekin uppúr og hallað örlítið uppávið, prikinu snúið á milli fingranna með annarri höndinni á meðan hin höndin slær létt á þá sem heldur á pinnanum. Með þessu móti ætti umfram hjúpur að renna aftur í skálina og þið ná að mynda slétta fallega áferð (þetta tekur yfirleitt um 20-30 sekúndur fyrir hvern pinna nema hjúpurinn sé þeim mun þykkari). Munið að strjúka umfram hjúp af prikinu án þess þó að snerta kúluna og þegar þið haldið að pinninn ráði við það að standa án þess að hjúpurinn leki niður megið þið strá kökuskrauti að eigin vali á kúluna og stinga pinnanum að lokum í frauðplast eða annað slíkt.

Best er að leyfa pinnunum að þorna alveg og þá má setja þá á disk, plasta og geyma í ísskáp í allt að 3-5 daga áður en þeir eru bornir fram. Hægt er að setja tilbúna kökupinna í frysti en þeir gætu þó átt það til að „svitna“ örlítið séu þeir settir strax í mikinn hita og látnir þiðna þar. Bera má pinnana fram í glasi fullu af nammi eða öðru sem ykkur dettur í hug.

Berglind Hreiðarsdóttir er flinkari en flestir að baka kökur.
Berglind Hreiðarsdóttir er flinkari en flestir að baka kökur. mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka