Veitingastaðir tilbúnir með Heinz fyrir Sheeran

Ed Sheeran mun ekki skorta réttu tómatsósuna á meðan Íslandsdvölinni …
Ed Sheeran mun ekki skorta réttu tómatsósuna á meðan Íslandsdvölinni stendur. Ljósmynd/Reykjavík Meat

Glærir kassar sem innihalda Heinz-tómatsósu og sósuskál eru nú til sýnis á nokkrum veitingastöðum í Reykjavík. Eru kassarnir merktir á ensku: „In case of Ed Sheeran“, sem mætti þýða: „Ef ske kynni að Ed Sheeran mæti“ en aðeins tveir dagar eru í stórtónleika breska tónlistarmannsins sem haldnir verða á Laugardalsvelli á laugardag og sunnudag næstkomandi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ætlar Sheeran að taka sér stutt frí fyrir tónleikana og mæta fyrr til landsins.

Ed Sheeran er sérlegur aðdáandi Heinz-tómatsósunnar og hafði frumkvæði að því fyrir skömmu að biðja fyrirtækið, sem fagnar 150 ára afmæli á árinu, um samstarf. Lovísa Jenný Sigurðardóttir, markaðsstjóri Innnes, sem er umboðsaðili fyrir Heinz á Íslandi, staðfestir að heildverslunin standi á bak við fyrrnefnda Heinz-kassa og segir að Innnes hafi haft samband við nokkra af helstu veitingastöðum í Reykjavík sem séu í nálægð við tónleikastaðinn.

„Ef hann mætir á svæðið eru þeir bara klárir með Heinz-tómatsósu fyrir hann,“ segir Lovísa í samtali við Morgunblaðið. Ellefu veitingastaðir taka þátt í verkefninu, m.a. Matarkjallarinn, Reykjavík Meat og Humarhúsið.

Ed Sheeran er væntanlegur til landsins á næstu dögum.
Ed Sheeran er væntanlegur til landsins á næstu dögum.

Ekki „normið“ að fá sér tómatsósu með humri

Stefanía Lára Magnúsdóttir, vaktstjóri á Humarhúsinu, segir að mikil spenna ríki á veitingastaðnum fyrir komu Ed Sheeran til landsins en tómatsósukassanum var stillt upp í síðustu viku. Segir hún að það sé heiður að Humarhúsið hafi verið valið sem einn af þeim veitingastöðum sem væru taldir líklegir til að Ed Sheeran myndi velja að borða á.

„Við erum „fine dining“-veitingastaður svo við bjóðum venjulega ekki upp á tómatsósu hérna. Þetta var líka gert þannig að við myndum vera með tómatsósu til öryggis ef hann skyldi koma,“ segir Stefanía. „Erum bæði með þessa í kassanum og svo fengum við aðra til að hafa í kælinum fyrir hann sérstaklega,“ segir hún og hlær. Segir hún að starfsmenn Humarhússins vonist eftir því að Ed Sheeran velji að snæða á staðnum. „Hann er þekktur fyrir að velja öðruvísi staði og öðruvísi matargerð og fá sér tómatsósu með henni. Það er ekki normið að fólk fái sér tómatsósu með humri þannig að við höldum í vonina um að hann komi. Það eru alla vega allir viðbúnir ef hann skyldi koma,“ segir Stefanía.

Tómatsósa í vínbúrinu

Guðmundur Víðir Víðisson, einn af eigendum Reykjavík Meat, segir veitingastaðinn hafa fengið nokkur viðbrögð vegna kassans. „Við erum með þetta inni í vínbúrinu hjá okkur þannig að fólk sér þetta þegar það kemur inn,“ segir hann. Aðspurður segist hann vonast eftir því að Ed Sheeran velji að snæða á Reykjavík Meat. Segir sérstakt Ed Sheeran-tilboð verða í boði á staðnum um helgina sem verði opnaður fyrr en venjulega fyrir fólk sem vilji fá sér í gogginn fyrir tónleikana.

Sjálfur ætlar Guðmundur á aukatónleika Ed Sheeran á sunnudaginn og hlakkar mikið til.

„Þetta verður mjög gaman. Þetta er mjög góð tónlist hjá honum,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert