Gamla góða brauðsúpan

mbl.is/Salt eldhús

Brauðsúpa er einn af þeim réttum sem margir eiga æskuminningar um, slæmar eða góðar. Að mínu mati er vel elduð brauðsúpa eitt af því besta sem til er og mikilvægt að varðveita kunnáttuna.

Hún Sirrý í Salt eldhúsi á þessa uppskrift sem við hvetjum ykkur til að prófa.

„Flestar þjóðir eiga spennandi rétti þar sem brauðafgangar eru nýttir og þar sem rúgbrauð var almennt til á heimilum hér áður fyrr er þetta okkar útgáfa. Hér er hún ekki alveg eins og súpan hennar ömmu heldur stílfærð að mínum smekk, bæði með maltöli og mikilli sítrónu. Erfitt er að gefa upp rétt magn af vatni því það miðast við tegundina af brauði sem er notað. Þynnið eftir smekk og smakkið til í restina með malti og sítrónu, ef ykkur þykir brauðsúpa góð er það lítið mál.“

Brauðsúpa

  • 300 g brauðafgangar, best er að nota meira en helminginn rúgbrauð
  • 6-8 dl vatn
  • 2 dl maltöl
  • 1 sítróna
  • 1 dl rúsínur
  • sykur eftir smekk
  • 2½ dl rjómi, léttþeyttur
  • 2-3 tsk. sítrónubörkur

Aðferð:

  1. Leggið brauð í bleyti í skál með 2-3 dl af vatninu eða svo fljóti yfir.
  2. Látið bíða yfir nótt á borðinu. Setjið brauðið í pott með vatninu sem var bleytt í með og bætið maltöli, 2-3 dl af vatni og tveimur sítrónusneiðum út í.
  3. Sjóðið þetta saman þar til brauðið fer að losna í sundur, það getur tekið u.þ.b. 20 mínútur, fer eftir því hvort brauð var með skorpu.
  4. Takið sítrónurnar úr og losið brauðbitana í sundur með písk, þynnið eftir smekk með vatni.
  5. Bætið nú rúsínum út í og látið sjóða aðeins lengur eða þar til rúsínur eru orðnar mjúkar (6-8 mín). Smakkið til með malti, sykri og vel af sítrónusafa.
  6. Berið fram með þeyttum rjóma og rifnum sítrónuberki ofan á.
mbl.is/Salt eldhús
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert