Hversu vel þrífur þú eldhúsið?

Ertu með allt á hreinu í eldhúsinu hvað þrifin varðar?
Ertu með allt á hreinu í eldhúsinu hvað þrifin varðar? mbl.is/Colourbox

Við þurfum að halda eldhúsinu hreinu, því annars endar það sem ein stór bakteríubomba. En hvernig er best að halda því hreinu til að missa ekki tökin út í einhverja vitleysu? Förum aðeins yfir tékklistann til að halda rétt á spöðunum.

Í hverri viku:
Gólfið: Þú þarft að skúra gólfið einu sinni í viku og alls ekkert endilega með heitu vatni. Það er nóg að vatnið sé volgt, það fer bæði betur með gólfefnið og umhverfið. Og passið að nota milt sápuefni ef eitthvað er notað.

Ísskápurinn: Það er auðvelt að halda ísskápnum við ef þú tekur til í honum vikulega. Þannig kemur þú í veg fyrir að matvæli gleymist og hreinsar út það sem er orðið gamalt. Best er að þrífa ísskápinn upp úr ediki sem blandað er í vatn og jafnvel með 2-3 dropum af uppþvottalegi.

Ruslafatan: Staðurinn sem á það til að gleymast er ruslafatan. Matvæli sem leka niður úr pokanum og beint í fötuna svo hún lyktar þrátt fyrir að pokinn sé farinn út í tunnu. Til að losna við slæma lykt eftir að hafa þrifið fötuna er ráð að bleyta upp í gömlu brauði með ediki og setja í hreinan ruslapoka og láta standa í ruslafötunni yfir nótt.

Ofndyrnar: Glerið á ofninum verður oft á tíðum haugaskítugt ef við höldum því ekki við. Þú getur þrifið brúna og brennda fitu með smávegis af tannkremi og hvítlauks feiti.

Eldhúsvaskurinn: Vaskurinn verður fyrir alla muni að fá almennilegt „bað“ einu sinni í viku. Þó að hann sé stanslaust undir vatnsbununni yfir daginn þá er það ekki nóg. Hann verður að fá almennilegt skrúbb til að losa um bakteríur og annað sem liggur á yfirborðinu.

Í hverjum mánuði:
Ofninn: Það er algjörlega nauðsynlegt að þrífa ofninn í það minnsta 1 sinni í mánuði, eða allt eftir því hversu oft þú notar hann. Þá erum við að tala um ofninn sjálfan en ekki bara glerið eins og hér fyrir ofan. Bökunarplöturnar og grindin þurfa sinn þvottanúning og þá er gott að notast við brúnsápuna. Smyrja allt vel og vandlega og pakka vel inn í poka eða plastfilmu. Skrúbba svo með svampi allar brenndar matarleifar á bak og burt.

Uppþvottavélin: Það er hægt að kaupa hreinsi fyrir uppþvottavélina sem kostar lítinn pening út í búð. Munið að keyra einum góðum hreinsi í gegn annan slagið og takið ristina og filterinn og skrúbbið vel í leiðinni.

mbl.is/Colourbox
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert