Lengi lifi uppþvottavélin! Það verður allt svo mikið einfaldara þegar hún er innan seilingar einfaldlega til að losa okkur við uppvaskið sem bíður eftir annasaman dag. En hvernig fáum við það allra besta út úr vélinni?
Hvað fer í vélina?
Byrjaðu á að renna yfir þau eldhúsáhöld og borðbúnað sem er á leið í vélina. Eru þetta allt stórir hlutir eða litlir? Raðaðu fyrst litlu hlutunum inn og því næst þeim stóru.
Diskarnir snúa í sömu átt
Diskarnir eru best geymdir í neðri grindinni á uppþvottavélinni. Raðaðu diskunum öllum í sömu áttina og láttu þá stóru standa aftast og þá minni snúa að miðjunni.
Raðaðu hnífapörunum
Prófaðu að sortera hnífapörin næst þegar þú setur í vélina. Hnífar saman í hólf, gafflar saman o.s.frv. Þannig spararðu heilmikinn tíma þegar þú tekur úr vélinni eftir þvott. Skeiðar eiga það til að leggjast saman og vera skítugar eftir þvottinn, en þá er upplagt að raða þeim með skaft og haus upp til skiptis.
Ekki skola
Enn og aftur tökum við þetta málefni fyrir. Það á að sjálfsögðu að skafa matarleifarnar af diskunum og í ruslið en það er óþarfi að skola hvern og einn disk sem við notum. Það er bara sóun á vatni!
Tæmdu neðri skúffuna fyrst
Byrjaðu á því að tæma neðri grindina í uppþvottavélinni. Það safnast alltaf eitthvert vatn fyrir sem mun bara leka beint niður á hreint leirtauið ef þú tekur fyrst efri grindina.