Sjónvarps- og kvikmyndahátíðin Golden Globes hefur samið við Icelandic Glacial um að íslenska lúxusvatnið verði samstarfsaðili hátíðarinnar á næsta ári. Hollywood Reporter greinir frá tíðindunum og segir Icelandic Glacial með þessu ryðja í burtu vatns-merkinu Fiji.
Það virðist hafa kastast í kekki á milli Fiji og Golden Globe í kjölfar óvæntrar uppákomu á verðlaunaathöfninni í byrjun þessa árs. Hafði Fiji ráðið laglega unga konu, Kelleth Cuthbert að nafni, til að standa með bakka af vatnsflöskum og bjóða fræga fólkinu, einmitt á þeim stað á rauða dreglinum þar sem hefð er fyrir því að sjónvarps- og kvikmyndastjörnurnar staldri við og leyfi ljósmyndurum að mynda sig í bak og fyrir. Þótti Cuthbert svo glæsileg að hún fékk að fljóta með í mörgum af þeim myndum sem síðan voru birtar í fréttum slúður- og glanstímarita um verðlaunaathöfnina.
Fiji greip tækifærið og hleypti af stokkunum markaðsherferð sem byggði á sýnileika Cuthbert á viðburðinum, og eins og svo oft vill gerast í Bandaríkjunum höfðaði hún mál á hendur vatnsfyrirtækinu.
Samstarfið við Icelandic Glacial felur m.a. í sér að íslenska fyrirtækið skuldbindur sig til að láta vatnsflöskur af hendi rakna til mannúðarstarfs. Þá verður vatnið á hátíðinni framreitt í glerflöskum en ekki í plasti.
Golden Globe-verðlaunahátíðin fer fram 5. janúar næstkomandi.