Getum við sagt að jólin séu freistandi? Það eru jú freistingar á hverju strái hvað smákökur, konfekt og góðan mat varðar. Þessi sæta jólasynd inniheldur hnetur úr ýmsum áttum og er hreint út sagt unaðsleg.
Sæta jólasyndin
- 150 g smjör
- 225 g hveiti
- 75 g flórsykur
- 1 eggjarauða
- 1 msk kalt vatn
- Smjör til að smyrja formið
Karamellu-hnetufylling:
- 100 g heslihnetur
- 100 g valhnetur
- 100 g makadamíuhnetur
- 50 g ósaltaðar pistasíuhnetur
- 3 dl sykur
- 50 g smjör
- 3 dl rjómi
- Sjávarsalt
- 40 g sultaður appelsínubörkur (má sleppa)
Aðferð:
Botn:
- Smuldrið smjörið í hveitið og bætið flórsykri og eggjarauðu út í. Hnoðið saman.
- Setjið filmu yfir skálina og setjið inn í ísskáp í sirka 1 tíma.
- Smyrjið formið (sirka 26x26 cm) með smjöri og hitið ofninn á 180°.
- Rúllið deiginu út þannig að það sé sirka ½ cm á þykktina og leggið í formið. Bakið í 15-18 mínútur.
Karamellu-hnetufylling:
- Leggið heslihneturnar á bökunarpappír á bökunarplötu og ristið í ofni við 180° í 10 mínútur, þar til þú finnur ilminn leika um húsið. Reynið að „nudda“ eins mikið af hnetuhýðinu af með t.d. viskastykki.
- Saxið valhneturnar gróflega og dreifið þeim ásamt restinni af hinum hnetunum á bökunarplötu og ristið í ofni í 5-6 mínútur þar til gylltar og byrja að ilma. Passið samt að rista þær ekki of mikið og látið alveg kólna.
- Bræðið sykurinn í potti þar til karamellukenndur og takið þá af hellunni. Bætið 1 skeið af smjöri út í í einu á meðan þú hrærir í á meðan. Bætið því næst rjómanum út í og setjið aftur á helluna. Leyfið sósunni að koma upp og setjið jafnvel smá sjávarsalt út í á meðan þú hrærir í. Setjið í kæli í 1 tíma.
- Dreifið hnetunum og appelsínuberkinum (ef vill) á botninn og hellið kaldri karamellusósunni yfir.
- Setjið kökuna í kæli þar til karamellan er orðin stíf.
- Skerið í bita og berið fram.