Vefsíðan grgs.is, eða Gulur, rauður, grænn og salt, hefur notið mikilla vinsælda í sjö ár. Hjúkrunarfræðingurinn og fjögurra barna móðirin Berglind Guðmundsdóttir byrjaði að blogga um helsta áhugamál sitt, matargerð, haustið 2012. Í fyrra sagði hún starfi sínu lausu sem hjúkrunarfræðingur enda á matreiðslan hug hennar allan.
„Hjartað mitt var þarna. Auk þess að sjá um vefsíðuna hef ég verið að halda matreiðslunámskeið í fyrirtækjum og nýlega byrjaði ég með matreiðslunámskeið fyrir börn sem hafa áhuga á matargerð. Það hefur heldur betur slegið í gegn. Einnig hef ég haldið námskeið og fyrirlestra fyrir konur sem vilja láta hugmyndir sínar verða að veruleika.“
„Þetta byrjaði allt með hugmynd sem ég fékk í lok sumars 2012 en ég hef alltaf haft mikinn áhuga á matargerð. Svo hefur þetta vaxið og dafnað og er alltaf jafn gaman. Fólk er farið að færast mikið inn á Instagram en það virðist ekki hafa mikil áhrif á vinsældur vefsíðunnar sem fær um 5-7 þúsund síðuflettingar á dag. Lykillinn er stöðugleiki en ég set oftast inn að minnsta kosti tvær nýjar uppskriftir í viku og hef gert það síðan ég byrjaði með vefsíðuna. Á síðasta ári fékk ég til liðs við mig nýja aðila til að koma inn með uppskriftir, en það eru matarmennirnir þeir Bjarki og Anton, Íris Blöndahl, Valgerður eða Valla og Hafliði Már. Það er algjör lukka að hafa fengið þau til mín en þau gera gott enn betra,“ segir Berglind.
Áður hefur Berglind gefið út tvær matreiðslubækur en þriðja bókin, Vinsælustu réttirnir frá upphafi, var að detta í hillur bókaverslana.
„Það má segja að þetta sé uppskerubókin. Þarna eru allar vinsælustu uppskriftirnar frá árinu 2012 komnar saman í eina bók,“ segir hún og segir hafa verið af nógu að taka.
„Það var erfitt að gera upp á milli,“ segir Berglind og segir eitthvað fyrir alla í bókinni.
„Bókin er fjölbreytt og þótt það sé kaka á forsíðunni er þetta alls ekki bara kökubók. Í bókinni er ekki eitthvað eitt; aðallega er maturinn einfaldur og fljótlegur.“
Er eitthvað sem þú vissir að yrði að fara í bókina?
„Já, eins og döðlupestóið sem er eitt það allra vinsælasta. Og piparostakjúklingurinn.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
„Ég elska að gera litríkan mat. Eins og fallegt kjúklingasalat. Ég fæ mikið út úr því, enda er nafnið á vefsíðunni lýsandi fyrir mína matargerð; Gulur, rauður, grænn og salt,“ segir hún og hlær.
En að baka, ertu mikill bakari?
„Nei, ekkert sérstaklega. Ég er hræðileg að skreyta kökur og börnin hafa beðið mig um að gera það aldrei aftur fyrir barnaafmæli. En ég geri alveg góðar kökur en þá skiptir einfaldleikinn miklu máli.“