Hér gefur að líta uppskrift frá sjálfum Frikka Dór sem hann segist elska heitar en flest. Eða því sem næst. Við erum að tala um spagettí carbonara sem er eins ítalskur og æðislegur réttur og hugsast getur.
Spagettí carbonara
- 250 g linguine
- 3 eggjahvítur
- 5 eggjarauður
- 60 g parmesanostur
- 200 g beikon
- 3 hvítlauksgeirar
- Salt og pipar eftir smekk
- Ólífuolía eftir smekk
- Steinselja eftir smekk
Aðferð:
- Skerðu beikon, steinselju og hvítlauksgeira smátt og settu til hliðar.
- Rífðu parmesanost niður með rifjárni.
- Hrærðu eggjahvítur, eggjarauður og parmesanostinn vel saman ásamt salti og pipar. Þá er grunnurinn að sósunni tilbúinn. Settu sósuna svo til hliðar.
- Sjóddu linguine í potti eftir leiðbeiningum á umbúðum. Settu um 4 msk. af bæði salti og ólífuolíu í pottinn. Þegar pastað er tilbúið skaltu geyma um 2 bolla af vatni úr pottinum til hliðar. Það verður notað til að þynna sósuna út ef þess þarf.
- Hitaðu pönnu á rúmlega meðalháum hita.
- Steiktu beikonið á pönnu þar til það veður stökkt. Þegar beikonið er tilbúið skaltu taka það af pönnunni og leggja á pappír.
- Settu hvítlaukinn á pönnuna og leyfðu honum að steikjast í 1 mínútu áður en pastað er sett á hana.
- Sigtaðu vatnið frá pastanu, settu pastað á pönnuna og veltu því upp úr beikonfitunni.
- Taktu pönnuna af heitu hellunni og bættu sósunni út á.
- Hrærðu hægt og rólega á meðan þú veltir pastanu upp úr sósunni. Ef sósan er of þykk skaltu bæta við örlitlu af vatninu sem þú tókst til hliðar hér að framan.
- Bættu beikoninu, steinseljunni, parmesanostinum og ólífuolíunni við og blandaðu öllu saman.
- Kryddaðu með salti og pipar eftir smekk og smakkaðu til.