Hamborgarhryggurinn dalar hægt og rólega í vinsældum

Hamborgarhryggur hefur í langan tíma verið langvinsælasti jólamatur Íslendinga og …
Hamborgarhryggur hefur í langan tíma verið langvinsælasti jólamatur Íslendinga og ekki er útlit fyrir að það breytist í ár. mbl.is/Brynjar Gauti

Þeim sem ætla að gæða sér á hamborgarhrygg á aðfangadag hefur fækkað á undanförnum árum, en þrátt fyrir það er rétturinn enn sá langvinsælasti hjá Íslendingum þennan dag. Samkvæmt könnun MMR ætla 46% landsmanna að fá sér hamborgarhrygg, en þeim hefur fækkað hægt og rólega frá árinu 2010 þegar 53% landsmanna völdu þann rétt.

Á eftir hamborgarhryggnum kemur lambakjöt, annað en hangikjöt, en 9% svarenda könnunarinnar sögðust ætla að fá sér það. 9% ætla einnig að fá sér rjúpur, en 8% ætla að fá sér kalkún. Hefur hlutfall þeirra sem velja þessa þrjá rétti haldist nokkuð svipað frá árinu 2010.

Áhugi á nautakjöti og grænmetisfæði hefur hins vegar aukist frá 2010, en nú ætla 6% að fá sér nautakjöt, samanborið við 2% árið 2010 og 4% gera ráð fyrir að fá sér grænmetisfæði. Var hlutfallið 1% árið 2010 og hélst reyndar í 1% til ársins 2015.

17% svarenda ætla að fá sér eitthvað annað, en þar undir er meðal annars fiskur og sjávarfang, hangikjöt, hreindýrakjöt, gæs, kjúklingur, önd og svínakjöt annað en hamborgarhryggur.

Ungt fólk á aldrinum 18—29 ára er líklegast til að ætla að fá sér grænmetisfæði, en 9% aðspurðra gera ráð fyrir að snæða það á aðfangadag. Var sá hópur einnig líklegri en aðrir aldurshópar til að velja nautakjöt, en ólíklegri til að velja lambakjöt, annað en hangikjöt. Elsti hópurinn, 68 ára og eldri, reyndist líklegastur til að fá sér kalkún, en 13% þess hóps velja þann kost. 50—67 ára eru hins vegar líklegri en aðrir til að fá sér rjúpu, eða 12% aðspurðra.

Konur eru talsvert líklegri en karlar að velja sér grænmetisfæði, eða 6% gegn 3% karla.

Þegar svörin eru borin saman við stjórnmálaskoðanir kemur í ljós að stuðningsfólk Miðflokksins er líklegast til að velja hamborgarhrygg (58%), stuðningsfólk Samfylkingarinnar líklegast til að velja grænmetisfæði (12%) og stuðningsfólk Framsóknarflokksins líklegast til að velja lambakjöt, annað en hangikjöt (22%). Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins er hins vegar líklegast til að velja rjúpur (14%) og stuðningsfólk Vinstri grænna er líklegast til að velja kalkún (18%).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert