Sagan á bak við þessa uppskrift er nokkuð skemmtileg. Dags daglega nýt ég þeirra forréttinda að vera umkringd matgæðingum sem deila reglulega með mér eldhúsævintýrum sínum.
Einn þessara matgæðinga er Kristinn Magnússon, meistaraljósmyndari með meiru. Hann sagðist hafa eldað þennan rétt í matarboði á dögunum og hann hefði algjörlega slegið í gegn.
Sem mikill andstæðingur mauksuðu á rjúpum deili ég þessari uppskrift fagnandi og vona að þið njótið vel.
P.s. ljósmyndin var tekin á síma og ekki hugsuð til deilingar á sínum tíma. Ég linnti hins vegar ekki látum fyrr en ég fékk hana :)
Steiktar rjúpnabringur með beikonfyllingu, rósakáli, pikkluðum rauðlauk og kartöfluflögum
Rjúnabringur:
Salti og sykri er blandað saman og bringurnar grafnar í blöndunni í 9 mínútur. Skolið bringurnar og þerrið. Olía er hituð á pönnu og bringurnar steiktar á annarri hliðinni í mínútu. Bringunum er snúið við og smjörinu bætt við. Steikið bringurnar á hinni hliðinni í 45 sekúndur og ausið smjörinu yfir á meðan. Takið bringurnar af pönnunni og setjið undir álpappír og látið hvíla í 10 mínútur. Skerið bringurnar í sneiðar og kryddið með salti og pipar.
Sósa:
Skarlottulaukur er steiktur á pönnu á lágum hita þar til hann er orðinn ljósbrúnn og mjúkur. Næst er sírópi bætt við og karmellað í um 2 mín. Eplaediki og rauðvíni er bætt við og soðið niður um helming. Því næst er rjúpnasoðinu bætt við og það soðið niður um helming þar til sterkt rjúpubragð er að sósunni, passa að sjóða ekki of mikið því þá verður soðið beiskt. Næst er rjóma og mjólk bætt við og það soðið niður um helming. Þegar ágætis þykkt er komin á sósuna (nokkuð þunn) er timjan sett út í og soðið í um 30 mín. á mjög lágum hita. Sósan er svo sigtuð og smökkuð til með eplaediki og salti og pipar.
Beikon- og pecanhnetufylling
Bræðið smjörið og mýkið laukinn, selleríið og sveppina í því. Takið pottinn af hitanum og bætið öllu nema eggjunum og soðinu saman við. Blandið vel saman. Bætið eggjunum og soðinu að lokum út í. Dreifið úr blöndunni á ofnplötu með smjörpappír þannig að hún sé um 1 cm þykk. Bakið þar til hún er orðin gullinbrún. Kælið og notið t.d. piparkökuform til að skera út stjörnur eða annað jólamunstur. Steikið fyllinguna á pönnu upp úr smjöri og berið fram með rjúpunni.
Pikklaður rauðlaukur:
Laukur er skorinn til helminga og svo skorinn í sneiðar.
Edik, vatn og sykur er hitað saman í potti og hellt yfir laukinn. Látið laukinn standa í blöndunni í að minnsta kosti 12 tíma.
Kartöfluflögur:
Möndlukartöflur og bláar kartöflur eru skornar í þunnar sneiðar og djúpsteiktar. Saltið kartöflurnar um leið og þær koma upp úr olíunni og kælið.
Rósakál skorið til helminga og steikt upp úr olíu og smjöri og kryddað með salti og pipar.
Flott er að skreyta disk með ferskum rifsberjum og jurtum