Eitt allra besta „smørrebrød“ er mætt á borðið og hér með rauðsprettu, rauðkáli og heimagerðu remúlaði sem er mun betra en búðarkeypt.
Smurbrauð er orðin árleg hefð í kringum jólin hjá Hildi Rut og fjölskyldu, en hún var alin upp við að borða slíkar kræsingar á aðventunni. Hér bakar hún rauðsprettuna í ofni en hún segir það vera bæði betra og fljótlegra – og svo undirbýr hún meðlætið á meðan fiskurinn bakast.
Smurbrauð með rauðsprettu og heimagerðu remúlaði (fyrir 4)
- 800 g rauðspretta (má kaupa með roðinu á)
- 1 dl hveiti
- 2 egg
- 3-4 dl panko rasp
- Salt og pipar
- 20-40 g smjör
- Rúgbrauð, (Hildur Rut kaupir heilkorna rúgbrauð)
- Ferskt rauðkál, eftir smekk
- Steinselja
Heimagert remúlaði
- 3-4 sýrðar gúrkur
- 1 msk. capers
- 4 msk. majónes
- 2 msk. sýrður rjómi
- 3 msk. dijon sinnep
- Karrý
- Túrmerik
- Salt og pipar
Aðferð:
- Roðflettið rauðsprettuna ef það þarf og skerið í bita sem passa á rúgbrauð.
- Pískið egg í skál. Hellið hveiti á disk og hrærið saman brauðraspi og kryddi í djúpum diski eða skál.
- Veltið fiskinum upp úr hveitinu, egginu og síðan raspinum.
- Skerið smjör í litla teninga og raðið í botninn á eldföstu formi.
- Dreifið fiskinum ofan á smjörið og dreifið meira smjöri ofan á fiskinn. Bakið í 30 mínútur við 200°C.
- Skerið rauðkálið í þunnar ræmur.
- Smyrjið rúgbrauðið með smjöri, dreifið rauðkálinu ofan á, því næst kemur rauðsprettan og toppið svo með remúlaði og ferskri steinselju.
Heimagert remúlaði
- Skerið sýrðu gúrkurnar smátt.
- Hrærið saman majónesi, sýrðum rjóma, sinnepi og kryddi. Varist að krydda of mikið með karrý eða túrmeriki, mæli með að smakka sig áfram.
- Bætið svo við sýðrum gúrkum og capers og hrærið.
mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir